Eiríkur Björnsson "Heyrðu mig, ungi maður, ég þarf að segja þér eitt: Það voru Skaftfellingar sem fundu upp rafmagnið."

Það var óborganleg stund að fá að sitja með Nóbelsskáldinu eina kvöldstund á Klaustri fyrir tæpum tuttugu árum þegar ég vann að skráningu upplýsinga um rafvæðingu Vestur-Skaftafellssýslu og hann lýsti með sínum hætti helstu eðlisþáttum Skaftfellinga, hógværð, þrautseigju, verklegri snilli og heimspekilegri ró.

Að Eiríki Björnssyni í Svínadal gengnum er lokið merkum kafla í atvinnusögu Íslendinga. Kafla sem er nær jafn gamall öldinni og segir sögu rafvæðingar sveitanna. Til verksins var nýtt vatnsafl, þetta óþrjótandi afl landsins sem á uppsprettu sína í sól og regni, frosti og funa og er vistvænna flestum öðrum orkugjöfum. Rafmagnið færði fólkinu birtu og yl, hreinlæti, verklega tækni og aukna hagsæld. Eiríkur vann að verkum sínum í eldmóði nýrrar aldar og lifði það að sjá inn í gegnum gættina að næstu öld, því framsýni hans var einstök. Hann var góður smiður, vandaður til orðs og æðis, yfirvegaður og hlýr. Fastur fyrir og þurfti rökstuðning fyrir breytingum. Mikill húmoristi og tók nýjum verkum sem áskorun um sköpun, hafði litla nennu til að standa í stagli eða lífsgæðakapphlaupi fyrir sjálfan sig.

Ég kynntist Eiríki sumarið 1979 er ég nýútskrifaður verkfræðingur fékk sumarvinnu við að skrásetja sögu rafvæðingar Vestur-Skaftafellssýslu og þátt heimamanna í því verki. Mér drengstaulanum var þá ekki ljóst hvað ég var að hella mér út í þegar ég tók að mér þetta verk, eftir auglýsingu á töflu í verkfræðideild Háskólans. Hafði, þótt ég sé að hálfu Skaftfellingur, reyndar aldrei komið austur og tók að mér óskilgreint verkefni, bæði hvað varðaði upphaf og endi. Flestir þekkja af afspurn að nokkrir bændur í Vestur-Skaftafellssýslu reistu rafstöðvar í byrjun aldarinnar en litlum heimildum hafði verið safnað um þessa menn, störf þeirra og verk. Mest hefur verið fjallað um frumkvöðulinn Bjarna Runólfsson í Hólmi, sem lést árið 1938, langt um aldur fram. En fleiri komu við sögu og að frumkvæði ritnefndar Dynskóga, rits Vestur-Skaftfellinga, var ákveðið að safna saman þeim upplýsingum sem unnt væri að fá um verk þessara frumherja og var ég svo lánsamur að starfa að þessu tvö sumur, 1979 og 1980. Þá voru enn á lífi flestir þeirra sem við sögu komu, s.s. Valgerður ekkja Bjarna í Hólmi, Svínadalsbræðurnir Eiríkur og Sigurjón, Sigfús á Geirlandi og Einar á Kaldrananesi, en hann einn er á lífi af þessu fólki. Samantekt þessi var gefin út í hefti Dynskóga árið 1983.

Eiríkur Björnsson fæddist í Svínadal í Skaftártungu og ólst þar upp hjá foreldrum sínum í stórum systkinahópi. Þar átti Eiríkur heima allt sitt líf, ef frá eru talin árin sem hann dvaldi í Hólmi. Hann byrjaði ungur að fást við smíðar, var hagur jafnt á járn og tré, vann í leður, smíðaði hnakka o.fl. Á árunum 1925-1931 má segja að hann hafi unnið nær eingöngu að túrbínusmíðum og uppsetningu rafstöðva á verkstæði Bjarna Runólfssonar í Hólmi. Þar unnu þá nokkrir ungir og vaskir menn, m.a. bróðir Eiríks, Sigurjón, sem réðst þangað strax 16 ára að aldri. Þeir unnu járn úr strönduðum skipum, bræddu kopar úr skipsskrúfum, smíðuðu túrbínur af mismunandi gerðum og reistu um 115 vatnsaflsstöðvar um allt land. Francis, Kaplan og Pelton túrbínur voru smíðaðar skv. teoríunni og rafmagn meðhöndlað af gætni og lagni. Fengu þessir ofurhugar enda flestir löggildingar sem rafvirkjar á seinni hluta starfsævinnar.

Mér er minnisstætt þegar ég hitti Eirík í Svínadal fyrst. Maðurinn tók mér kurteislega en með gætni. Spurði tíðinda úr Reykjavík, sagði fréttir af búskap og högum heimafólks, gaf lítið fyrir erindi mitt. Eftir góðan viðurgjörning kvaddi ég með orðum um að ég kæmi fljótt aftur. Það sinnið blés allt á annan veg hjá Eiríki, hann sagðist vita hverra manna ég væri, langafi minn og nafni hefði sagt sér til í söðlasmíði. Fórum við nú smám saman að nálgast viðfangsefnið og þegar ég spurði hvort hann hefði ekki eitthvað fengist við túrbínusmíðar í Svínadal að Bjarna í Hólmi gengnum, sagði hann: "Jú lítillega." Hvað margar? spurði ég. "Fimmtíu og eina," sagði kappinn.

Eftir þetta fórum við að ná betur saman. Hann sýndi mér bókina sína góðu með útreikningunum sem hann góðfúslega lánaði mér til ljósmyndunar fyrir Dynskóga, eftir að hafa vandlega límt fyrir þær blaðsíður sem geymdu peningaleg uppgjör og þess háttar sem ekki á að bera á torg. Hann gerði lítið úr sínum þætti í Hólmi, taldi þetta allt hafa verið hópvinnu unna undir forystu Bjarna, sinn þáttur hefði varla verið meiri en annarra. Útreikningarnir og skráningin um túrbínusmíðina báru vitni mikilli hugsun og nákvæmni, djúpri þekkingu á viðfangsefninu og skilningi á eðlisfræði og verkfræði. Þeir félagarnir lásu sér til í erlendum bókum, mest nýttu þeir sér danska bók, Lommebog for Mekanikere, eftir Peder Lobben. Bókin gekk undir nafninu "Lobbinn" í Hólmi. Í þeirri bók er að finna helstu lykilatriði eðlisfræði og aflfræði, einkum með áherslu á "praktíska" vélfræði og rafmagnsfræði. Þeir keyptu aðföng beint frá erlendum aðilum, með aðstoð góðra manna. Þegar ég spurði Eirík um "Lobbann" hafði hann ekki séð bókina síðan hann fór frá Hólmi á fjórða áratugnum. Hafði samt munað helstu formúlur og nýtt sér þær við smíði fimmtíu og einnar túrbínu í Svínadal, mælingar og uppsetningar á rafstöðvum um allt land. Mér lék því nokkur hugur á að nálgast "Lobbann" og komst í eintak hjá Sigurjóni bróður Eiríks. Sigurjón bjó í Vík og hittust þeir Eiríkur oft og höfðu báðir fengist við túrbínusmíði og uppsetningu rafstöðva eftir að verunni í Hólmi lauk. Hafði þó aldrei beint dottið í hug að spyrja hvor annan um "Lobbann", málið aldrei sérstaklega borið á góma. Á námsárum mínum í Kaupmannahöfn áskotnaðist mér síðan eitt eintak af "Lobbanum" góða og þótti mér tilhlýðilegt að Eiríkur fengi eintakið lánað svo lengi sem hann þyrfti.

Nýsköpunarþrá Eiríks var mikil. Hann reisti jarðbor í bæjargilinu og boraði þar eftir heitu vatni. Þegar við hittumst var margt og mikið spekúlerað. Hann hafði óbilandi trú á að nýta metangas úr kúamykju og honum þótti auðsýnt að smalamennskur yrðu auðveldari úr litlum þyrlum. Nýting innlendra vistvænna orkugjafa var hans æðsta takmark. Hann hafði einnig alltaf mikinn áhuga á bílum, ók sjálfur stórum Weapon með einkennisnúmerið Z-2 og keypti sér bíl fyrir tæpum þremur vikum, Lödu Sport, og var búinn að prófa gripinn heima við.

Hann var mér góður vinur, barngóður og hugulsamur. Áhugasamur um hagi og ástand fjölskyldunnar. Fylgdist með verkefnum og starfi líðandi dags, áhugasamur um þjóðmál og framfarir á Íslandi. Hann naut þess að eldast vel, halda heilsu og atgervi, ganga til daglegra verka og smíða eins og hugur hans stóð alltaf til.

Nú er síðasta jólakortið komið, ég get ekki annað en lesið það sem Eiríkur skrifaði um síðustu jól þar sem honum þótti tími kominn á heimsókn og manaði mig með glettni til farar. "Þú þarft náttúrlega að spara bensínið," var kveðjan. Nú er það svo að maður gleymir sér oft í stundar annríki og ekki varð af heimsókn í sumar, m.a. vegna starfa á nýjum vettvangi, því miður.

Störf Eiríks voru mikils metin af sveitungum hans, fjölda landsmanna sem naut verkkunnáttu hans og annarra sem honum kynntust. Hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 1986 fyrir störf sín að raflýsingarmálum.

Hugur Eiríks var frjór og ferskur allt til síðasta dags. Þegar hann lagðist inn á spítala til að gangast undir minni háttar aðgerð í síðustu viku var ekki reiknað með að hann gerði nema stuttan stans þar, en stundaglasið var tæmt og langri og farsælli ævi lokið. Megi góður Guð gefa sálu Eiríks Björnssonar í Svínadal hvíld að loknum löngum degi. Guð geymi alla ættingja og vini Eiríks og einkum Ágústu konu hans sem dvelur í hárri elli á Kirkjubæjarklaustri og Jón bróður hans, sem búið hefur einn með Eiríki í Svínadal hin síðari ár.

Frændi, þegar fiðlan þegir,

fuglinn krýpur lágt að skjóli,

þegar kaldir vetrarvegir

villa sýn á borg og hóli,



sé ég oft í óskahöllum,

ilmanskógum betri landa,

ljúflíng minn sem ofar öllum

íslendingum kunni að standa,



hann sem eitt sinn undi hjá mér

eins og tónn á fiðlustreingnum,

eilíft honum fylgja frá mér

friðarkveðjur brottu geingnum.



Þó að brotni þorn í sylgju,

þó að hrökkvi fiðlustreingur,

eg hef sæmt hann einni fylgju:

óskum mínum hvar hann geingur.

(H.K.L.) Hvíl í friði.

Þórólfur Árnason.