Guðmundur E. Sigurðsson Elsku Guðmundur. Með nokkrum orðum langar okkur að kveðja þig. Þú hefur lagt upp í ferðalagið sem við öll munum fara en þangað sem við öll munum fara og hittast aftur. En að þú mundir fara svona snöggt er svo erfitt að trúa. Þú veiktist af þessum illvíga sjúkdómi og við öll trúðum því að tekist hefði að yfirbuga hann en raunin var önnur.

Drottinn er minn hirðir

mig mun ekkert bresta

á grænum grundum lætur

hann mig hvílast

leiðir mig að vötnum

þar sem ég má næðis njóta. (23. Davíðssálmur) Þú varst alltaf svo hraustur, mikill sundmaður, alla tíð "sundkóngur" okkar í Keflavík, reglusamur, hár og glæsimenni í alla staði. Við þekktumst úr Keflavík. Þú varst giftur Eygló frænku minni. Einstakur kærleikur einkenndi hjónaband ykkar. Hamingjusólin skein skærar því börnin ykkar eru 5, öll ákaflega vel gerð eins og foreldrar þeirra. Við vorum bæði í sundi eins og margir fleiri í ættini.

Ég átti þeirrar gæfu að njóta að kynnast ykkur öllum enn betur þegar við vorum starfsmenn Sameinuðu þjóðanna í New York þar sem við öll bjuggum svo lengi.

Fjölskyldur okkar tengdust sterkari vináttuböndum. Margar góðar samverustundir áttum við á Manhattan þar sem mín fjölskylda bjó og úti á Long Island hjá ykkur öllum. Minningarnar eru margar frá Bandaríkjunum en við geymum allar frekari minningar í huga okkar og hjarta.

Mig langar að kveðja þig með þessum orðum.

Þó ég sé látinn, harmið mig ekki með tárum,

hugsið ekki um dauðann með harmi og ótta.

Ég er svo nærri að hvert eitt tár ykkar snertir mig og kvelur, þótt látinn þið mig haldið.

En þegar þið hlæið og syngið með glöðum hug lyftist sál mín upp í mót til ljóssins.

Verið glöð og þakklát fyrir allt sem lífið gefur og ég, þótt látinn sé, tek þátt í gleði ykkar yfir lífinu.

(Khalil Gibran) Örfáar vikur voru í stórafmælið þitt en þú kvaddir daginn fyrir upphaf Allsherjarþings SÞ í New York þar sem þinn starfsferill var lengstur.

Elsku Eygló mín, Sólveig Helga, Sonja, Gummi og Ásgeir Freyr, makar, barnabörn og aðrir sem syrgja brottför Guðmundar, innilegustu samúðarkveðjur. Guð styrki ykkur og leiði í ykkar sorg. Megi minningin um góðan dreng ylja okkur um ókomna tíð. Ég færi kveðjur frá foreldrum mínum, systkinum og fjölskyldum þeirra.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinarskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.



Far þú í friði,

friður guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem) Elsku Guðmundur, megi kærleiki guðs umvefja þig í ljósi sínu.

Vinar og saknaðarkveðjur.

Guðrún Pétursdóttir, Jim Devine, James og Helgi Þór.