Gunnar Bjarnason Ég finn í tölvunni hjá mér bréfkorn frá 17. apríl 1996, stílað á Hestakóng Gunnar Bjarnason. Upphaf bréfsins er á þessa leið:

"Ég er að spekúlera í að filma sögukorn sem er byggt á litlu atviki sem varð á Hólum í Hjaltadal, þegar ég var þar í sveit hjá þér. Þú munt trúlega kannast við atvikið eða atburði eitthvað líka þeim og lýst er í smásögunni Þegar það gerist, sem Almenna bókafélagið gaf út fyrir nokkrum árum. Ég leita nú til þín með litla bón: mig vantar texta inn í tvö atriði kvikmyndahandritsins, sem ég held þú værir allra manna hæfastur til að spinna."

Nokkrum dögum síðar kom Gunnar í heimsókn. Hann var greinilega farinn að eldast og gekk við staf, en yfir honum var ennþá sú reisn sem gerði hann líkari höfðingja úr einni af Íslendingasögunum en aðra menn sem ég hef þekkt í gegnum tíðina. En þótt Gunnar væri aðsópsmikill héraðshöfðingi í eðli sínu hafði hann um leið til að bera allt það besta úr fari íslensks alþýðumanns; hlýjuna, hjálpsemina og umfram allt mikið skopskyn og þá ekki síst fyrir sjálfum sér. Þetta fann ég best þennan apríldag í Laugarnesinu þegar hann spann upp hugmyndir í þann texta sem mig langaði til að leggja sögupersónu minni í munn. Það er ekki öllum gefið að geta skoðað lífið og uppákomur þess af því æðruleysi og djúpa mannlega innsæi sem Gunnar hafði til að bera. Þannig kom Gunnar mér fyrir sjónir þegar ég kynntist honum fyrir nær fjörutíu árum og allt fram til síðustu stundar. Og víst er að atvikið sem ég vísaði til í bréfkorninu hér að framan er ekki það eina honum tengt sem hefur orðið mér efni í skáldskap. Svo litríkur var Gunnar að hann var nánast eins og sögupersóna úr mikilfenglegri skáldsögu, í flestu sem hann tók sér fyrir hendur.

Og nú þegar Gunnar kveður í hinsta sinn og horft er um öxl sést skýrt hversu glæsilegu ævistarfi hann skilaði. Hann var brautryðjandi og hugsjónamaður sem skildi manna fyrstur hvað bjó í íslenska hestinum og hóf hann til þeirrar virðingar sem honum bar. Hann flutti mál sitt af þeim hita sem eldhugum einum er gefið. Þegar samferðamenn hans reyndu að leggja stein í götu hans eða urðu skammsýninni að bráð, þá fyrirgaf hann þeim eins og mildur faðir sem fyrirgefur óþekktarormum heimskupör.

Ég kveð þig frændi sæll, með söknuð í hjarta ­ tilveran verður fátækari þegar menn eins og þú kveðja. Fjölskyldu þinni og vandamönnum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Hrafn Gunnlaugsson.