Guðný J. Scheving Mín kæra frænka, Guðný Jónsdóttir Scheving, er síðust móðursystkina minna sem kveður þetta jarðlíf, komin liðlega þrjú ár fram á tíunda áratuginn. Hún fékk þá ósk sína uppfyllta að fá að kveðja í dagsins önn, að þurfa ekki að verða öðrum til byrði. Kallið kom nokkuð óvænt síðdegis föstudaginn 18. þessa mánaðar, er hún skömmu áður hafði kvatt gest sem bar að garði. Langur starfsdagur er að baki og hún sinnti eldhússtörfum þennan dag eins og aðra daga.

Að þjóna öðrum var henni kært, þjónustulundin, samviskusemin og skylduræknin voru hennar aðalsmerki. Ætíð settist hún síðust að matborðinu til þess að vera til taks ef eitthvað skyldi vanta. Alltaf fann hún til kvöldmatinn fyrir sig og Sigurgrím tengdason sinn, þegar Sigrún dóttir hennar var ókomin úr vinnu, og ósvikinn skyldi kvöldverðurinn vera, ekkert snarl, því fólk sem ynni erfiðsvinnu þyrfti að fá staðgóðan mat.

Guðný ólst upp í glöðum systkinahópi, fyrst í Reynisholti og síðan á Vatnsskarðshólum. Snemma komu í ljós áðurnefndir eiginleikar hennar, sem áttu eftir að verða henni gott veganesti í gegnum lífið. Hún var tuttugu og eins árs þegar hún hleypti heimdraganum, fór til Reykjavíkur eins og svo margar ungar stúlkur hafa gert gegnum tíðina. Þá var Guðný í vist í mörg ár hjá Rögnu Stefánsdóttur og Nikulási Friðrikssyni frá Litlu-Hólum, miklum sæmdarhjónum. Þar mynduðust sterk tengsl og samband sem entist út ævina og aldrei bar skugga á, fyrst við þau hjón og síðar börn þeirra.

Við saumaskap vann Guðný í mörg ár, m.a. um árabil í húfugerð, þá vann hún í netagerð á tímabili. En tengslin við sveitina voru sterk og framan af kom hún heim á sumrin og vann að búi foreldra sinna á Vatnsskarðshólum, þá fór hún í kaupavinnu í nokkur sumur, var m.a. tvö sumur í Odda á Rangárvöllum hjá sr. Erlendi og Önnu konu hans. Þá fór hún eitt sumar í kaupavinnu að Bergþórshvoli með vinkonu og sveitunga, Sigurlínu Guðbrandsdóttur frá Loftsölum. Þar mynduðust vinatengsl sem sum entust til síðustu stundar.

Það urðu stór þáttaskil í lífi frænku minnar þegar hún gerðist ráðskona hjá Gunnari Ólafssyni, útgerðarmanni í Vestmannaeyjum, þá með dóttur sína barnunga. Því hlaut starf ráðskonunnar að vera margþætt og gestagangur mikill og stórt hús að hugsa um. Vermennirnir héðan úr Mýrdalnum sem héldu til heima hjá Gunnari á þessum árum minntust Guðnýjar með miklu þakklæti. Svo vel vakti hún yfir velferð þeirra og aðbúnaði öllum. Það var til þess tekið hversu mikla alúð Guðný lagði í að hjúkra Gunnari eftir að hann lagðist rúmfastur og þurfti orðið fulla aðhlynningu, hvernig þessi smágerða kona réð við að hreyfa og hagræða þessum stóra manni, ekki síst vegna þess að hún var aldrei heilsusterk, var m.a. alla tíð böguð af kviðsliti. En henni tókst að hafa Gunnar heima og hjúkra honum nánast til hinstu stundar, en hann hafði þráð það mjög að fá að vera heima sem lengst. Gunnar Ólafsson lést 26. júní 1961, komin á 98. árið.

Um haustið 1961 fluttu þær mæðgur svo aftur til Reykjavíkur, fyrst á heimili Rögnu og Nikulásar á Hringbrautinni og síðar í Bólstaðarhlíðina. Þaðan fluttu þær síðan 1979 í Álfheima 3, þar sem fjölskyldan hefur búið síðan.

Fyrsta minningin um þessa kæru frænku mína er frá þeim tíma þegar hún dvaldi hér á Skeiðflöt, þá með Sigrúnu dóttur sína barnunga. Það voru einhverjir nýir ferskir straumar úr borginni sem fylgdu henni, ýmislegt sem hún hafði meðferðis sem ungur sveitadrengur hafði ekki áður augum litið. Gleði mín var mikil þegar Guðný saumaði handa mér tjald úr léreftspokum (hveitipokum), nákvæma smækkaða eftirlíkingu að tjöldum frá þeim tíma.

Það var eins og allur saumaskapur léki í höndum hennar, hvort sem það voru viðgerðir eða nýsaumur, og allt var jafnvandað, fallegt og vel frá gengið og þolinmæði hennar við hvers konar vandasöm verkefni í prjóna- eða saumaskap var takmarkalaus.

Guðný átti sterkar taugar hingað í Mýrdalinn og hún reyndi að halda tengslunum við með því að fylgjast með mönnum og málefnum hér austurfrá. Hér átti hún margt vina og kunningja og hingað austur í Mýrdal kom hún oftast á hverju sumri meðan heilsan leyfði.

Með Guðnýju er gengin einstök sæmdarkona til orðs og æðis, ég minnist þess aldrei að hafa heyrt hana hallmæla nokkrum manni og ef hún heyrði slíkar orðræður reyndi hún ætíð að bera blak af þeim umrædda. Ekki minnist ég þess að hafa nokkru sinni séð hana skipta skapi, þó var hún ákveðin í skoðunum og gat verið föst á sínu ef því var að skipta.

Ótal sinnum lenti Guðný inni á sjúkrastofnunum en aldrei kvartaði hún. Ég held að þetta einstaka lundarfar hennar og bjartsýni á lífið og tilveruna hafi ætíð hjálpað henni til að komast til heilsu á ný. Að lokum viljum við bræðurnir á Skeiðflöt þakka Guðnýju einstaka vináttu og velvilja frá fyrstu tíð. Hún gleymist okkur seint fórnfýsi hennar þegar móðir okkar lá banaleguna, þá kom hún austur til að aðstoða okkur við að hjúkra henni.

Við sendum Sigrúnu, Sigurgrími, Þórunni, Guðnýju Ósk, Vidar og börnum þeirra dýpstu samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning okkar kæru frænku.

Eyþór Ólafsson.