Guðmundur E. Sigurðsson Í dag er kvaddur hinstu kveðju Guðmundur Sigurðsson, hann lést 20. september sl. langt fyrir aldur fram aðeins tæplega sextíu ára gamall.

Hann hafði í nokkur ár barist hetjulega við illvígan sjúkdóm sem erfitt er að sigrast á. Þrátt fyrir mikil og erfið veikindi í langan tíma sinnti hann störfum sínum á erlendri grund þar til nokkrum dögum fyrir andlát sitt, að hann kom heim til Íslands og fyrr en nokkurn varði var baráttunni lokið.

Það segir nokkuð um skaphöfn hans að viðurkenna ekki ósigur og berjast allt til enda. Allt frá æskuárum var hann mikill keppnismaður, á yngri árum iðkaði hann íþróttir og var afreksmaður í sundi og bar titilinn sundkóngur um hríð.

Æskulýðsmál voru honum hugleikin, hann lagði sig fram um að leiðbeina æskufólki og hvetja til heilbrigðs lífs og reglusemi. Ungur að árum hóf hann störf við löggæslu og varð það hans ævistarf, fyrstu árin í lögregluliði Keflavíkurflugvallar og eftir nokkurra ára farsælt starf þar réðst hann til starfa við öryggisvörslu hjá Sameinuðu þjóðunum í New York. Um árabil var hann sérstakur lífvörður aðalritara Sameinuðu þjóðanna. Síðasta árið starfaði hann við öryggisgæslu hjá hafréttardómstólnum í Hamborg í Þýskalandi.

Reglusemi og skyldurækni ásamt vinsamlegu og virðulegu viðmóti öfluðu honum hvarvetna vinsælda og virðingar þeirra sem með honum störfuðu.

Undirritaður minnist þess þegar leiðir okkar svilanna lágu fyrst saman fyrir meira en fjörutíu árum, þá hafði ég tengst elskulegri fjölskyldu og dvaldi ásamt konu minni á heimili tengdamóður minnar. Dag einn birtist ungur og glæsilegur piltur í fylgd með Eygló yngri systur konu minnar. Þau tvö voru myndarlegt par með ljóma æskunnar í augum. Saman hafa þau síðan gengið sína ævibraut og skilað góðu dagsverki. Börnin þeirra urðu fimm, hvert öðru mannvænlegra og foreldrum sínum til ánægju og sóma.

Starf lögreglumanna er oft erfitt og vinnutími óreglulegur, það er að líkum að mikið reyni á eiginkonuna við barnauppeldi og heimilisstörf, einkanlega þegar heimili er sett saman í fjarlægri heimsálfu, en það eins og allt annað lék í höndum þeirra Eyglóar og Guðmundar. Á heimili þeirra í N.Y. var afar gestkvæmt, var almælt að Ísland ætti þar ólaunaðan sendiherra því gestrisni þeirra var slík að allir sem komu frá gamla Fróni voru boðnir velkomnir til að dvelja hjá þeim.

Það er viðurkennd staðreynd að lífshamingja ræðst mikið af því að samhentir einstaklingar veljist til sameiginlegrar lífsgöngu. Ég hygg að Guðmundur hafi talið það sína mestu gæfu að leiðir þeirra Eyglóar skyldu liggja saman, hann virti hana og dáði alla tíð.

Þó heimili þeirra hjóna væri löngum erlendis var ætíð mikið og gott samband við ættingja og vini hér heima. Það var ánægjulegt að fá þau í heimsókn, það fylgdi þeim framandi og hressilegur blær og ætíð um margt að spjalla.

Guðmundur fylgdist vel með því sem var að gerast í þjóðmálum og myndaði sér skoðun á hinum ýmsu málum sem voru til umræðu hverju sinni. Hann var einarður og rökfastur í málflutningi enda áhugasamur um velferð þjóðfélagsins.

Í starfi sínu hjá Sameinuðu þjóðunum varð hann góðvinur margra þeirra sem höfðu með stjórnun þjóðmála að gera, hann hafði því tækifæri til að afla sér þekkingar á mörgum þeim málum sem til umfjöllunar voru þó hann gætti fyllsta trúnaðar þar sem þess var krafist.

Aðeins örfáum dögum fyrir andlát hans átti sá er þetta skrifar samverustund með honum fársjúkum, þá var til umræðu eins og oft áður staðan í þjóðmálum og hvað mætti betur gera til að gera gott þjóðfélag enn betra. Hann vildi ekki ræða sín veikindi eða vandamál, frekar vinna til hinstu stundar í gamla góða ungmennafélagsandanum sem hafði að leiðarljósi: Íslandi allt.

Þessi samverustund var á heimili Sólveigar tengdamóður okkar beggja, milli þeirra var mjög sterkt samband og gagnkvæm ástúð. Þau mátu hvort annað mikils og að verðleikum, söknuður hennar er sár eins og allra annarra í fjölskyldunni við fráfall Guðmundar en jafnframt kærleiksríkt þakklæti fyrir kynnin við hann á liðnum árum.

Það er erfitt að sætta sig við brottför góðs vinar en óskhyggjan dugir skammt þegar kallið kemur.

Missir eftirlifandi eiginkonu og afkomenda er mikill, en minningin um góðan, ástríkan eiginmann, föður og afa gefur þeim styrk til að takast á við erfiðleikana.

Þó geislar sumarsins víki um stund, munu börnin verða þeir geislar sem verma í framtíðinni þau hjörtu sem syrgja í dag.

Ég og fjölskyldan biðjum Eygló og fjölskyldu hennar og vinum blessunar um ókomin ár.

Blessuð sé minning góðs drengs.

Ari Sigurðsson.