Guðmundur E. Sigurðsson Kæri tengdafaðir.

Það var um haustið 1991 þegar ég kom til New York í fyrsta sinn sem unnusti dóttur þinnar sem ég sá þig fyrst. Ég var hálf feiminn og vissi ekki við hverju var að búast, jafnvel hálf hræddur. Þú stóðst við landganginn og gnæfðir yfir alla sem þar var svona líka stór og myndarlegur svo af bar. Þú faðmaðir mig um leið og við mættumst og ég var eins og smá krakki í örmum þínum og mér leið eins og ég væri óharðnaður unglingur. Alla tíð sýndir þú mér mikla hlýju og stuðning og ætíð fús til að styðja við bakið á okkur þegar eitthvað bjátaði á.

Hugur þinn var svo hreinn og beinn, allir menn voru jafnir í þínum huga og aldrei gleymi ég því þegar við vorum saman í aðalbyggingu Sameinuðu þjóðanna hvernig þú heilsaðir öllum jafnt stórum sem smáum með sömu hlýju enda afar vel liðinn þar á bæ.

Heimili ykkar tengdamömmu var okkur ætíð opið og það var eins og okkar annað heimili alla tíð og verður svo um ókomin ár enda veit ég að þó svo að þú sért farinn yfir móðuna miklu munt þú ætíð vera hjá okkur.

Göngutúrarnir um Keflavík og samveran í New York og Newport eru stundir sem aldrei gleymast og ekki síður kvöldin í New York þegar þú gafst mér kúbanskan vindil og sjúss með og við þögðum og nutum stundarinnar saman. Orð voru óþörf.

Kæri Guðmundur, megi guð varðveita þig og vera þér náðugur.

Elsku Eygló mín, missir þinn er mikill og ég vona að minningin um góðan dreng styðji þig um alla framtíð. Þinn styrkur er svo mikill og dugnaður þinn í veikindum Guðmundar var aðdáunarverður svo af bar. Hann Guðmundur þinn fékk bestu eiginkonuna sem hægt var að fá. Guð veiti þér styrk til að takast á við sorgina.

Elsku Sólveig mín, Helga, Sonja, Guðmundur og Ásgeir, missir ykkar er mikill en minningin um góðan föður yljar ykkur um alla tíð. Guð varðveiti ykkur og fjölskyldur ykkar.

Friðjón.