Guðmundur E. Sigurðsson Ég hafði starfað í lögreglunni á Keflavíkurflugvelli í 4­5 ár þegar Guðmundur hóf þar sinn glæsta feril og komst ég ekki hjá því að veita því eftirtekt, hversu stór og vörpulegur þessi ungi og fríði maður var. Hann varð fljótt vel liðinn innan hópsins, sakir glaðværðar og glettni, dugnaðar og samviskusemi. Okkur varð fljótlega vel til vina og áttum margar ánægjulegar samverustundir, bæði í starfinu og utan þess. Hann var alla tíð sannur bindindismaður á vín og tóbak og barðist ötullega gegn vímuefnaneyslu unglinga, en fékk ekki eins miklu áorkað og hann vildi í þeim efnum, fremur en öðrum sem að þessum málum standa, enda við ramman reip að draga. En ef hann gat bjargað einum, jafnvel tveimur frá glötun, var hann hæstánægður, fannst hann hafa unnið þrekvirki.

Þótt ég væri 15 árum eldri, leit hann ávallt á mig sem jafningja og lét aldursmuninn aldrei spilla neinu á milli okkar. Og er hann sat við skýrslugerð, sem oft átti sér stað, því hann var ötull starfsmaður, leitaði hann oft til mín varðandi réttritunina, sem var hans veikasti hlekkur, því hann vildi leysa öll sín verkefni sem best af hendi, vildi ekki láta frá sér fara skýrslur fullar af málfræði- og stafavillum, fannst það niðurlægjandi.

1974 skildu leiðir okkar að verulegu leyti, því þá fluttist hann með fjölskyldu sína til Bandaríkjanna og gerðist öryggisvörður hjá SÞ. Þó rofnaði sambandið aldrei, því við höfðum lengi bréfasamband og í hvert sinn er hann kom hingað heim í leyfi, lét hann aldrei hjá líða, að "droppa" inn til okkar hjónanna og staldra við góða stund. Hafði hann þá oftast frá mörgu að segja, bæði í sambandi við starf sitt og áhugamál önnur. En er hann heimsótti okkur síðast, í janúar 1997, kvaðst hann hafa háð harða baráttu við versta óvin mannkynsins, krabbameinið, hafði gengið í gegnum erfiða lyfjameðferð og var vongóður um að hafa borið sigur úr býtum til frambúðar og var ekki fjarri lagi að ætla það, því Guðmundur leit mjög vel út þá og virtist hreystin uppmáluð. Hann var farinn að hlakka til að fara á eftirlaun, setjast í helgan stein og geta sinnt sínum áhugamálum meira en unnt hafði reynst á liðnum árum. En eins og allir vita, er krabbinn lúmskur andstæðingur og sleppir ekki umsvifalaust taki á þeim, sem hann hefur eitt sinn náð á sitt vald og það mátti vinur minn, eins og flestir aðrir í hans sporum, reyna. Ég hef fregnað, að hann hafi verið við gæslustörf í Þýskalandi, þegar sjúkdómurinn tók sig upp aftur og nú með alvarlegri hætti en áður. En er ég frétti, að hann væri lagstur inn á Sjúkrahús Reykjavíkur, heimsótti ég hann þangað, 5 dögum fyrir andlátið og er ég sá hann þá, vissi ég með sjálfum mér, hvert stefndi. Hann var þá orðinn holdgrannur og átti erfitt um mál. Ég hélt um hönd hans, á meðan ég flutti honum nýjasta ljóðið mitt: "Til umhugsunar", 10 vísur, er ég las 5. vísuna, sem hljóðar svo: "Í eiturlyfjum er unglingum hætt/ við alls konar bölvald að glíma,/ en úr þeirra málum fæst aldrei bætt,/ því oft skortir peninga og tíma, fann ég hvernig hann, af veikum mætti, herti takið um hönd mína og sendi mér augnaráð, sem sagði meira en mörg þakkarorð.

Kæri vinur, nú þegar þú ert horfinn á bak við fortjaldið, sem aðskilur líf og dauða, læt ég öðrum eftir að rekja þinn glæsta æviferil, vil einungis þakka ykkur Eygló fyrir áralanga vináttu og tryggð í garð okkar hjónanna, sem seint mun gleymast. Öllum aðstandendum ykkar sendi ég mína dýpstu samúð.

Sigurgeir Þorvaldsson.