Sigríður Bjarney Karlsdóttir Kæra tengdamóðir. Það haustar að, litir sumarsins fölna og farfuglarnir búast til brottfarar á fjarlægar slóðir, þá svífur andi þinn úr þreyttum líkama inn í ljós hins eilífa vors, þar sem burtfarnir ástvinir bíða þín og umvefja þig birtu og kærleika. En svona töldum við að brottför þín úr þessum heimi myndi verða. Þú varst ferðbúin, og kveiðst ekki endalokunum. En samt kom andlátsfregn þín á óvart því undanfarna mánuði hafðir þú verið með hressara móti, eftir erfið veikindi og slys síðastliðinn vetur. Þótt samleið okkar hafi ekki verið nema tíu ár, skilur hún eftir margar minningar, þú varst kær vinkona sem gafst mér hlutdeild í lífi þínu.

Að baki voru annasön ár, fyrst að vinna fyrir brauðstritinu í vist hjá öðrum, seinna að stýra stóru heimili, fæða tíu börn, annast uppeldi þeirra og vera sú sem allir gátu sótt allt til. Kímnigáfa, létt lund, ásamt ósérhlífni og dugnaði hefur fleytt þér gegnum lífið. Veraldlegur auður var ekki mikill, ein fyrirvinna á svona stóru heimili. Til dæmis eignaðist þú ekki þvottavél fyrr en þú gekkst með yngstu börnin, en hafðir áður þvegið þvottinn á bretti af ellefu manna fjölskyldu, og skolað í köldum brunni. Afkoma heimilisins byggðist á nýtni, hagsýni og myndarskap þínum, nýjar flíkur urðu til úr notuðum fötum eða efnisbútum sem þér áskotnuðust. Einnig heklaðrir þú ótrúlegan fjölda teppa og dúka ásamt því að sauma út myndir, dúka og púða, algjör listaverk, sem í dag og um ókomin ár prýða heimili afkomenda þinna.

Lífið fór ekki alltaf um þig mjúkum höndum, sorgin kvaddi dyra á fyrstu búskaparárunum þegar þú misstir dóttur sex vikna gamla, og seinna fórust tveir synir af slysförum og einn af völdum veikinda, allir fullorðnir menn, og árið 1974 dó eiginmaður þinn, Zóphonías Pétursson. Áföll í lífinu voru til að sigrast á, áfallahjálp ekki til staðar svo úrræðið var að bíta á jaxlinn og brosa gegnum tárin. Við nánari kynni fann ég að úr mörgu var óunnið og þegar við ræddun um liðna tíma í sorg og gleði opnuðust dyrnar að vel læstri geymslunni og löngu liðnir atburðir voru í andartakinu. Það var gott að geta grisjað til, sumt var geymt áfram sem dýrmætar minningar en annað var fyrirgefið eða gleymt. Að fylgja þér um völundahús fortíðarinnar skildi eftir nýja lífssýn sem ég er þakklát fyrir að hafa fengið að deila með þér.

Kæra vinkona. Megi andi þinn njóta frelsisins, ég bið Guð að gefa þér góða heimkomu. Öllum ástvinum sendi ég dýpstu samúðarkveðjur.

Nú er sál þín rós

í rósagarði Guðs

kysst af englum

döggvuð af bænum

þeirra sem þú elskaðir

aldrei framar mun þessi rós

blikna að hausti.

(Ragnhildur Ófeigsd.) Esther Jakobsdóttir.