Steingrímur Hannes Friðlaugsson Í dag er jarðsunginn frá Hagakirkju á Barðaströnd Steingrímur H. Friðlaugsson bóndi frá Ytri-Miðhlíð. Með honum er genginn einn af mætustu mönnum sem ég hef kynnst og vil ég minnast hans hér örfáum kveðjuorðum.

Ég man Steingrím fyrst er ég var unglingur á Patreksfirði en seinasta aldarfjórðunginn hafa kynni okkar orðið meiri. Mannkostum hans kynntist ég eftir að ég hóf störf við Mjólkursamlag V- Barð. á Patreksfirði en hann lagði þar inn mjólk, en ennþá frekar eftir að börn okkar felldu hugi saman og litlu afadrengirnir fæddust.

Steingrímur ólst upp og bjó alla sína tíð á Barðaströnd, einni fegurstu sveit landsins. Á yngri árum bjó hann eins og margur annar á þeim tíma við kröpp kjör. Það þurfti vinnusemi og útsjónarsemi að komast af við þau skilyrði. Hann hafði hvort tveggja í ríkum mæli.

Steingrímur fór til sjós sem ungur maður og stundaði önnur störf sem til féllu. Eftir að hann kvæntist konu sinni, Dagnýju Þorgrímsdóttur, hóf hann búskap í Ytri-Miðhlíð þar sem þau bjuggu í hálfa öld af einstökum dugnaði og ráðdeildarsemi. Þau hjón voru mjög samhent, snyrtimennsku þeirra við búskapinn var við brugðið. Mjólkurframleiðslan í Ytri-Miðhlíð var alltaf í úrvalsflokki, þar brá aldrei útaf.

Alltaf var gott að koma til þeirra hjóna, gestkvænt var enda gestrisnin einstök hvenær sem gest bar að garði. Steingrímur var greindur maður og hafði gaman af að ræða málefni líðandi stundar en var jafnframt grandvar í orðum sínum.

Ég kvaddi Steingrím síðast á hlaðinu í Ytri-Miðhlíð í fallegu sumarveðri í júlí. Síðan þá hrakaði heilsu hans mikið og nú er góður maður genginn.

Við hjónin þökkum honum öll elskulegheitin við okkur og fjölskylduna í gegnum árin og sendum Dagnýju, börnum þeirra og fjölskyldum innilegar samúðarkveðjur.

Jón Sverrir Garðarsson.