Gunnar Bjarnason Hugmaðurinn og eldhuginn Gunnar Bjarnason er látinn. Vinur föður míns fyrr á árum og okkar hjóna um alla tíð er horfinn á braut en skilur eftir sig ljúfar minningar í huga okkar.

Ég sé fyrir mér Gunnar Bjarnason að kynna íslenska hestinn í Þýskalandi fyrir tugum ára, (ásamt hestakonunni og rithöfundinum Úrsulu Bruuns). Hve þú fórst á kostum, þvílíkar áherslur á ágæti hestsins, góðgangi og hæfileikum, er þú varst að lýsa honum. Og til þess að leggja enn meiri áherslur á orð þín, þannig að áheyrendur skildu enn betur hvað tölt og skeið var, fórst þú á fjóra fætur á gólfið og sýndir hreyfingar þessa gangtegunda með höndum og fótum. Fólkið hreifst af þvílíkri innlifun að unun var að upplifa, ógleymanlegt. Og það er sem ég heyri þinn sérstaka hlátur af ánægju og gleði á eftir kennslunni. Þér fannst þetta fyndið sjálfum, og hafðir orð á.

Ég var ung þá að mennta mig í reiðkennslu á reiðskólanum í Hoya, að sjálfsögðu, að tilstuðlan Gunnars Bjarnasonar, en hann bauð mér oftast með þegar hann var að kynna íslenska hestinn í Þýskalandi.

Á fyrsta Evrópumóti íslenska hestsins í Schluchtern í Þýskalandi kom hann ásamt Páli Sigurðssyni og Höskuldi á Hofstöðum til að kynna enn fremur ganghæfileika þessara stórkostlegu hesta. Vignir Guðmundsson blaðamaður var með í för og fleiri mætir menn. Páll og Höskuldur sýndu hestana en Gunnar stjórnaði sýningunni. Það var unun að fylgjast með, hann bókstaflega hrópaði; sjáið þið, sjáið þið, svona á að gera þetta og fólkið hreifst svo með, að gleðihrópum og klappi ætlaði aldrei að linna. Of langt mál er að telja upp þar sem Gunnar fór af eldmóð að kynna íslenska hestinn.

En Gunnar kom víða við. Faðir minn og hann skipulögðu margar ferðir á hestum um Ísland meðal annars með erlenda ferðamálafrömuði, blaðamenn, ljósmyndara og ferðamenn.

Þar einnig varst þú líka oft með í för og þið fóruð á kostum í að lýsa landi og þjóð. Ég, unglingurinn og hestaskellan, fékk að vera með. Ógleymanleg er ferðin um Skagafjörð og í merkigil, með Úrsulu, Vigni og Páli Sigurðssyni og ég aðeins 14 ára. Man ég er við hittum Sigga í Krossanesi að flytja mjólkina, og við öll ríðandi niður á bakkana. Þú dreifst náttúrulega Sigga með. Hann spennti vagnhestinn frá og reið berbakt með okkur allan daginn, en mjólkin beið í vagninum. Svona varst þú, engum líkur.

En elsku Gunnar, nú þegar þú ert allur, hrannast upp minninagar. Hve þið Svava voruð mér góð er þið buðuð mér gjarnan að vera hjá ykkur á Hvanneyri eftir móðurmissi minn. Þá kynntist ég því hvað þú varst einnig mikill listamaður, málaðir í frístundum. Myndin sem þú málaðir og gafst mér, Veraldarauður hefur alltaf fylgt mér, þangað til þú fékkst hana að láni fyrir nokkrum árum.

Oft á seinni árum diskúteruðum við hvað er veraldarauður, er þú komst í heimsókn eða við hittumst en komumst aldrei að niðurstöðu. Margar ánægjustundir áttum við, er þú komst í heimsókn í Geldingaholt til okkar hjóna. Hvað þið Sigfús gátuð setið og rifjað upp minningar frá skólanum á Hvanneyri, þú kennarinn, hann nemandinn, þá var oft hlegið mikið.

Samverustundir voru alltof fáar á síðustu árum, er heilsan tók að bila hjá þér og þú keyrðir ekki lengur, og við alltaf á þönum þegar komið er í kaupstað.

Já, við hjónin eigum þér margt að þakka, góð kynni af mörgum frumkvöðlum ræktenda og seljenda íslenska hestsins á erlendri grund er þú komst með í Geldingaholt og kynntir þeim hestinn af eldmóð.

Læt ég hér staðar numið, of margs er að minnast. Við hjónin sendum börnum þínum og fjölskyldum þeirra og öllum ástvinum, hugheilar samúðarkveðjur. Hvíl þú í friði.

Rosemarie og Sigfús.