Gunnar Bjarnason Nú er fallinn í valinn í hárri elli einhver fræknasti merkisberi íslenska hestsins, Gunnar Bjarnason, fyrrverandi hrossaræktarráðunautur.

Gunnar tók við starfi hrossaræktarráðunautar árið 1940. Eftir að hann hóf störf urðu á fáeinum árum slíkar sviptingar í vélvæðingu landbúnaðarins að íslenski hesturinn varð að steingervingi í flestra augum. Til allrar hamingju hafði Gunnar kynnst mönnum sem voru hestamenn frá innstu hjartans taug og hrifist af þeim og þeir af honum. Þeir sættu sig ekki við það að vegferð íslenska hestsins væri svo gott sem lokið. Í þeirri baráttu sem framundan var nýttust eðliskostir Gunnars til fullnustu; leiftrandi hugmyndaflug, flugmælska og kjarkur sem jaðraði við fífldirfsku. Sigur vannst og reisti hann sér bautasteina sem aldrei munu falla.

Til að efla metnað í hrossarækt og félagslegt gildi hestamennskunnar umbylti Gunnar mótahaldinu og beitti sér fyrir að stórmót yrðu háð. Fyrsta landsmótið var haldið á Þingvöllum 1950 en áður stóð hann að stofnun Landssambands hestamannafélaga, m.a. til að skapa sér samstarfsaðila við mótahaldið. Á fyrsta landsmótinu kom hann fram með fyrsta skilgreinda dómkvarðann viðvíkjandi ræktun íslenska hestsins. Jafnframt á hann heiðurinn að því að hérlendis voru hross dæmd á tölulegum kvarða en ekki einungis flokkuð eins og tíðkaðist erlendis. Þá er enn ótalið það sem merkast er í ferli Gunnars en það er sköpun heils útflutningsatvinnuvegar.

Gunnar lét af starfi hrossaræktarráðunautar 1961 en hafði þá um árabil staðið í mikilli baráttu við að efla útflutning íslenskra hrossa og vinna hestinum sess meðal erlendra þjóða. Í þessari baráttu nýttust eðliskostir hans til hins ýtrasta. Þessu starfi sinnti Gunnar allt til 1987. Árangurinn þekkja allir en íslenski hesturinn hefur nú unnið sér alþjóðlega viðurkenningu og er enda einstakur í sinni röð. Í baráttu sinni fyrir útflutningi íslenska hestsins og við að vinna honum sess í útlöndum beitti hann sér fyrir stofnun FEIF sem eru alþjóðleg samtök eigenda og unnenda íslenska hestsins. Auk þess átti hann öðrum fremur heiðurinn af því að atvinnumennska í hestamennsku vann sér sess hér heima.

Vegferð frumkvöðulsins Gunnars Bjarnasonar er lokið. Í störfum sínum ruddi hann brautina fyrir þá sem eftir koma og stendur íslensk hrossarækt í ævarandi þakkarskuld við hann. Þeirri þökk vil ég hér með koma því á framfæri fyrir hönd hrossaræktarinnar í landinu og votta afkomendum Gunnars hina dýpstu samúð.

Kristinn Hugason hrossaræktarráðunautur.