Guðmundur Guðnason Við fráfall Guðmundar Guðnasonar rifjast upp hugljúfar minningar frá miðri öldinni. Ég var svo lánsamur að komast að á sveitaheimili til sumardvalar. Heppnin var í raun tvöföld því húsráðendurnir urðu mér sem aðrir foreldrar næstu þrjú sumur. Guðmundur og Sigurlaug í Fögruhlíð reyndust mér ákaflega vel og vinátta þeirra við mig og síðar fjölskyldu mína hefur varað æ síðan. Það varð mér, borgarbarninu, ómetanlegt að fá að kynnast sveitalífinu. Fyrsta sumarið var hvorki rafmagn né sími á bænum og hesturinn var enn þarfasti þjóninn. Guðmundur var hörkuduglegur og starfsamur bóndi, sem aldrei sló slöku við. Það var unun að horfa á hann slá með orfi og ljá í kargaþýfi. Slægjan stækkaði furðu fljótt og maður mátti hafa sig allan við til að raka ljána í takt við Guðmund. Baggarnir voru bundnir og settir upp á klakk. Í minningunni er ljómi yfir lestarferðum þar sem ég sat Brún með marga baggahesta í drætti. Reiðhestur Guðmundar á þessum árum hét Jarpur og það var mikill heiður ungum dreng að fá að sitja slíkan kostagrip. Guðmundur var góður harmóníkuleikari og spilaði gjarnan á mannamótum. Í sumar, þegar ég ræddi við hann í síðasta sinn, sagði hann frá ferðum sínum með harmóníkuna á öxl vaðandi yfir Þverá á leið sinni á böll niður í Landeyjar. Já, það var ljómi í augum mínum yfir öllu sem Guðmundur gerði. Hann var góður járnsmiður og smíðaði allar sínar skeifur sjálfur. Hann dengdi ljái og smíðaði ýmis tól og tæki. Mér þótti hann sem tröll að burðum þegar hann bar 50 lítra mjólkurbrúsana á bakinu niður á brúsapall. Dýravinur var hann sem sýndi sig meðal annars þegar hann óð mykjuna í haughúsinu upp í nára til þess að bjarga hænu, sem sat föst í mykjunni. Einhverju sinni þegar við Theódór komum heim með nokkur kríuegg til búsílags, gerði hann okkur grein fyrir því að fuglarnir ættu sér griðland og við skyldum ekki ræna þá eggjum. Vissulega var margt nýstárlegt, sem bar fyrir augu í sveitinni. Þau Guðmundur og Sigurlaug voru ákaflega samrýnd hjón og bjuggu börnum sínum, Ingileifu, Steinunni, Theódóri og Guðjóni, hlýlegt heimili og voru þeim góðir og traustir foreldrar. Minningar mínar frá þessum árum ylja mér ævinlega um hjartarætur. Fyrir það er ég þeim heiðurshjónum alltaf þakklátur.

Ég og fjölskylda mín sendum Sigurlaugu, börnum hennar og fjölskyldum þeirra innilegar samúðar- kveðjur og biðjum Guð að blessa minningu sómamannsins Guðmundar Guðnasonar.

Ingvar Pálsson.