Steingrímur Hannes Friðlaugsson Með fáeinum orðum viljum við systkinin kveðja afa okkar og þakka honum alla þá hjartahlýju sem hann sýndi okkur og alla góðu dagana í sveitinni.

Okkur var snemma ljóst að afi var einstaklega góður maður, hann vildi öllum svo vel, hvort heldur var mönnum eða dýrum, en minningarnar eru einmitt margar úr búskapnum því þaðan höfum við systkinin nánast okkar einu kynni af slíku og er okkur minnisstætt hversu mjúkum höndum afi fór um dýrin. Hann talaði til þeirra líkt og um börnin hans væri að ræða, "skammaði" ef með þurfti og strauk þeim blítt og hrósaði eða huggaði.

Við eldri systurnar munum seint gleyma eina skiptinu sem afi varð reiður við okkur, þá höfðum við komist að þeirri niðurstöðu að hænsnunum hlyti að leiðast þetta tilbreytingarlitla líf í hænsnakofanum og ákváðum að halda smáskemmtun fyrir þau. Við stilltum okkur því upp í miðjum hænsnakofanum og dönsuðum fyrir hænurnar fugladansinn og sungum með, með tilheyrandi látum. Afi átti þá leið hjá og sá okkur inn um gluggann og var ekki mjög hrifinn þar sem hænurnar myndu sennilega ekki verpa næstu vikuna eftir þessa skelfingu.

Í annað skipti fengum við eldri að fara einar í sveitina og fyrir okkur vakti að sýna fram á hæfni okkar í bústörfum. Ömmu og afa fannst hins vegar ómögulegt að vekja okkur fyrir allar aldir þannig að við vorum bara vaktar í kaffi þegar verkunum var lokið. Reyndin varð sú að mestan tímann sátum við inni og prjónuðum og var afrakstur þessarar tveggja vikna ferðar tvær prjónaðar peysur.

Afi var einstakt snyrtimenni og það var sko ekki óreiðunni fyrir að fara hjá þeim ömmu, hvort heldur var heima í bæ eða í útihúsunum. Við vorum alltaf svo stolt af hvað húsin og jörðin sem og dýrin voru vel hirt og Miðhlíð var og verður alltaf fallegasta og í raun eina "sveitin" fyrir okkur.

Það er varla hægt að minnast afa án þess að sjá ömmu honum við hlið því þau voru svo einstaklega samrýnd og góð hvort við annað. Fallegt var að sjá, og lærdómsríkt fyrir okkur sem yngri erum, hvað sú skilyrðislausa umhyggja og ást sem þau báru hvort fyrir öðru leiddi gott af sér, sjá þau strjúka hvort öðru, alltaf að hugsa um hvernig hinn aðilinn hefði það, ómöguleg ef þau gátu ekki allt hvort fyrir annað gert.

Elsku afi, við kveðjum þig nú en eftir eru ógrynni hlýrra minninga sem munu fylgja okkur um ókomna tíð. Elsku amma, Guð blessi þig og styrki.

Þorgrímur, Jóhanna, Dagný Erla og Elísa Sigríður Vilbergsbörn.