Gunnar Bjarnason Þegar við Halldór sonur Gunnars Bjarnasonar fyrir fjöldamörgum árum stóðum á fyrstu þrepum hestamennskunnar og reyndum á ýmsan hátt að öðlast fróðleik um hesta og hestamenn fannst Gunnari tilhlýðilegt að fara með piltana í reisu um landið, heilsa upp á helstu hestamenn fyrir norðan og austan og enda í Hornafirði. Þessi ferð varð ógleymanleg. Gunnar þekkti hvern bæ sem við ókum framhjá, sagði sögur af ábúendum og rakti ættir þar sem ýmsir þættir í skapgerð löngu liðinna forfeðra opinberuðust með dramatískum hætti í niðjunum. Allt var þetta satt og rétt, að minnsta kosti voru lýsingarnar svo ljóslifandi og fjörgandi að okkur piltungunum fannst þetta ekki geta verið öðruvísi. Þannig var það líka þegar Gunnar sannfærði okkur um að kaupa frekar tveggja vetra stóðhestsefni í Hornafirði en fallegt, vel ættað og efnilegt stóðhestsefni fyrir norðan. Hornfirski folinn var sendur suður, og þegar við Halldór sáum hann aftur vorum við sammála um að aldrei hefðum við séð jafnljótan hest. En þá var Gunnar víðs fjarri.

Ekki var annað að gera en að nota hestinn í stóðið og temja. Reynslan af hestinum varð síðan sú að hann fríkkaði ekki og afkvæmi hans urðu ekki glæsihross. En fjörið, þessi dýrmætasti eiginleiki hesta, var með ólíkindum og oftast fylgdi prýðisgangur. Þannig hafði Gunnar séð prinsinn í froskinum, og ekki hægt að áfellast hann þó að eitthvað af froskinum sæti eftir við umbreytinguna.

Ég átti eftir að kynnast Gunnari betur er við dvöldum nokkrar vikur í Ameríku með 40 íslenska hesta er þangað voru fluttir til Ameríku á vegum Búvörudeildar SÍS. Eins og búast mátti við komu upp alls konar vandamál sem Gunnar ýmist leysti á einhvern hátt, eða þóttist ekki sjá, og þá voru þau ekki lengur til trafala. Mest ógnun stóð þó af skilningsleysi sumra útlendinganna á íslenska hestinum. Ráðsmaður á búgarðinum þar sem hestarnir dvöldu taldi víst, að hestarnir mundu drepast ef þeir stæðu heilan dag úti á beit. Þá fullyrti hann einnig, að hinir útlendu stóru jálkar myndu murka lífið úr þeim íslensku ef þeir kæmust í návígi. Og einn daginn sé ég hvar ráðsmaðurinn, sem var stór og mikill rumur, kemur stormandi í átt til Gunnars. Ég heyri að hann öskrar á Gunnar og heimtar að íslensku hestarnir fari brott á stundinni. Gunnar svarar einhverju til. Ég sé hvar ráðsmaðurinn reiðir hnefann og er til alls líklegur. En nú var Gunnari nóg boðið. Hann hvessti augun á ruminn og sagðist skyldu segja honum úr hverju íslenski hesturinn væri gerður, og hvers vegna hinir ofvernduðu stóru útlendu jálkar myndu ekki hafa erindi sem erfiði ef þeir reyndu að angra þá íslensku. Þetta var byrjun ræðunnar sem stóð yfir í nokkrar mínútur. Rök voru sótt í íslenskt harðbýli um aldir, þróunarsögu hestakynja allt frá tímum Rómverja til okkar daga, reynsludæmi frá Evrópu o.fl. Allt flæddi þetta út úr honum í samfellu og með þeim raddstyrk og sannfæringarkrafti sem hann bjó svo ríkulega yfir, og var ennþá magnaðra við þessar krítísku aðstæður.

Ráðsmanninum var brugðið. Það var eins og hann hefði misst sjónar á ætlunarverki sínu. Hann gekk burtu hálfringlaður. En allt sem við báðum hann um eftir þetta var sjálfsagt.

Dagarnir í Ameríku voru sumir nokkuð þreytandi í þrúgandi hita og við ókunnar aðstæður. En hvenær sem var gat maður átt von á að Gunnar skellti upp úr vegna einhvers skondins sjónarhorns sem hann hafði séð í þessu daglega amstri. Húmor hans var mjög náttúrulegur, ekki smíðaður til þess að vera fyndinn, heldur óhjákvæmilegur af því að þessi flötur málsins blasti bara allt í einu við honum.

Gunnar var maður heitra skoðana og sannfæringa. Það kom mér því nokkuð á óvart hve opnum huga og hleypidómalaust hann ræddi um ýmsa samferðamenn sína, jafnvel þá sem höfðu lagt stein í götu hans. Hann ræddi um persónu þeirra eins og fræðimaður þegar hann leitaði skýringa á gjörðum þeirra, eða eins og hestamaður sem spyr hvort rótar hrekkjanna sé að leita í misheppnaðri tamningu eða genum frá forfeðrunum. Gunnar hafði tekið þátt í mörgum orustum á sinni ævi og hvorki hlíft sjálfum sér né öðrum. En ég fann ekki að hann bæri kala til nokkurs manns, enda orðinn vel trúaður um þetta leyti og væntanlega séð allt bardagasviðið í nýju ljósi. En eldhugi var hann til hinsta dags.

Sigurður G. Thoroddsen.