Guðmundur Guðnason Sá ég ei fyrr svo fagran jarðargróða,

fénaður dreifði sér um græna haga,

við bleikan akur rósin blikar rjóða.

Hér vil ég una ævi minnar daga,

alla sem Guð mér sendir...

(Jónas Hallgr.) Ævidagar nágranna míns og vinar, Guðmundar í Fögruhlíð, eru á enda. Hann lést á Sjúkrahúsi Suðurlands á Selfossi hinn 12. september síðastliðinn, nær 89 ára að aldri. Hann var elstur barna hjónanna Steinunnar Halldórsdóttur og Guðna Guðmundssonar á Kotmúla í Fljótshlíð, er þar bjuggu frá 1909­1945.

Æsku sína og uppvaxtarár átti Guðmundur hjá foreldrum sínum á Kotmúla og gerðist snemma ötull og liðtækur vel við bústörfin, en einnig áhugasamur liðsmaður félagslífs og framfara í sveitinni. Honum var einnig gefin tónlistargáfa og söngrödd góð eins og mörgu af hans ættfólki og afkomendum. Á yngri árum sínum skemmti hann sveitungum sínum o.fl. með ljúfum harmoníkutónum "þegar saman safnast var, sumarkvöldin fögur" ­ og í annan tíma þegar næði gafst til að "æfa saman eitthvert lag eða syngja kvæði", eins og sveitungi hans Þorsteinn Erlingsson orðaði það.

Þegar á sextánda ári réðst Guðmundur til vertíðarstarfa á vetrum, fyrst einn vetur í Sandgerði en síðan í Vestmannaeyjum í 13 vertíðir.

Þáttaskil urðu í lífi hans er hann kvæntist hinn 15. nóvember 1934 unnustu sinni og jafnöldru, Sigurlaugu Guðjónsdóttur í Tungu í Fljótshlíð, en þau voru nágrannar frá barnæsku ­ aðeins tvær bæjarleiðir á milli æskuheimila þeirra. Hófu þau búskap í Vestmannaeyjum þar sem þau bjuggu í tvo vetur ­ en árið 1936 ráðast þau í það stórvirki að reisa frá grunni nýbýli á hálfri Kotmúlajörðinni sem með því var skipt í tvö sjálfstæð lögbýli.

Þrátt fyrir erfiðleika undangenginna kreppuára ríkti bjartsýni og sóknarhugur hjá ungu fólki í sveitinni í þá daga. Og þegar ungu hjónin völdu sínu snyrtilega og vel uppbyggða nýbýli nafn, ­ hygg ég að þeim hafi stjórnað svipuð tilfinning og listaskáldið góða lýsir í þeim hendingum úr Gunnarshólma sem tilfærðar eru í upphafi þessara orða ­ um fegurð og gróðursæld Fljótshlíðar. Því að býlið þeirra hlaut nafnið Fagrahlíð, sem vissulega er vel við hæfi ­ eins og við blasir þegar komið er inn á ásinn þar sem bærinn stendur litlu innar, ofan þjóðvegar undir grænni hlíð, gróðri vafinni, með bæjaröðina inn eftir sveitinni í baksýn og tignarleg Tindfjöllin eins og kórónu hið efra.

Þeim hjónum, Guðmundi og Sigurlaugu, búnaðist vel í Fögruhlíð ­ enda þótt jörðin væri ekki stór. Snyrtimennska og smekkvísi jafnt utan bæjar sem innan bar húsráðendum fagurt vitni. Alúð og natni lýsti sér í heimilisbrag öllum og búskaparháttum. Guðmundur var augljóslega á réttri hillu í sínu lífsstarfi. Hann var bóndi af Guðs náð. Forsjáll og glöggur á búshagi jafnt sem bústofn, sem hann ræktaði bæði til augnayndis og aukinna afurða. Umhirðu alla og meðferð bústofnsins innti hann af höndum af þeirri nærfærni og umhyggju sem ber laun sín bæði í innri gleði og ánægju bóndans yfir prúðri hjörð og sællegum gripum sem og í bættri afkomu bús og heimilis. "Bóndi er bústólpi, bú er landstólpi, því skal hann virður vel." Bóndinn í Fögruhlíð var traustur stólpi sinnar sveitar og samfélags og naut trasuts og virðingar sveitunga sinna. Honum var um árabil falið á hendur að sjá um forðagæslu og fóðureftirlit í sveitinni og gegndi því ábyrgðarstarfi af kunnáttusemi og trúmennsku svo sem honum var eðlislægt. Guðmundur í Fögruhlíð var ákveðinn í skoðunum og hreinlundaður, maður skapfestu og drenglyndis. Hann var mikill vinur vina sinna og hjálpsamur nágranni. hann var einn af stofnendum Kirkjukórs Fljótshlíðar árið 1942 og söng bassa í kórnum um áratuga skeið. Góður félagi og traustur liðsmaður í kirkjustarfinu, þar sem sönggleðin sameinar og lyftir hug til hæða.

Ég er þakklátur fyrir að hafa átt Guðmund í Fögruhlíð að nágranna, vini og samstarfsmanni öll þessi ár, ­ og fyrir mína hönd og Ingibjargar konu minnar votta ég Sigurlaugu eiginkonu hans og börnum þeirra og afkomendum einlæga samúð við fráfall hans ­ og bið góðan Guð að hugga þau og styrkja í söknuði þeirra.

Sváfnir Sveinbjarnarson.