Gunnar Bjarnason "Gjörðu svo vel, ég ætla að gefa þér þessar bækur."

"Ég kom nú bara til þess að biðja þig að hafa framsögu um ræktun og kynningu íslenska hestins, með Halldóri búnaðarmálastjóra hjá fræðslunefnd Fáks."

"Þú átt þessar bækur og í þessari hérna fjalla ég einmitt um ævintýrið með íslenska hestinn á meginlandinu og sigurgöngu hans þar." ­ Hann ýtti þykkum bókabunka til mín.

"Þvílíkur höfðingi ertu," sagði ég og horfði á volduga útgáfuna á borðinu, ­ Ættbók og sögu íslenska hestsins. "Já, ég á heldur ekki langt að sækja það, því Bjarni Sívertsen og Rannveig Filippusdóttir, forfeður mínir, voru líka miklir höfðingjar. Hún fegursta kona á Íslandi, og engar tillögur í atvinnumálum þjóðarinnar á síðustu öldum dugðu betur en tillögur og framkvæmdir Bjarna. Auk þess, sem hann leysti auðvitað hafnbann breska heimsveldisins á Íslandssiglingarnar á Napóleonstímunum við sjálfan konunginn í London, ásamt vini sínum Sir Joseph Banks, og bjargaði þannig þjóðinni frá hungurdauða eftir Móðuharðindin."

Gunnar Bjarnason hélt margar innblásnar ræður á lífsleiðinni, en sérstaklega naut hann sín í umfjöllun um íslenska hestinn, enda hrossaræktarráðunautur og stolt hans sem Íslendings var einstakt.

"Íslenski hesturinn," sagði Gunnar "er svo einstakur í veröldinni að fjöri, fjölhæfni, hæfileikum og geðslagi, að hann einn dygði að til halda frægð okkar á loft meðal þjóðanna. Svo er hann mjög þrekmikill líka og hefur sem lífvera aldeilis þolað súrt og sætt með þjóðinni í þúsund ár.

Þótt við hefðum aldrei skrifað helstu bókmenntir veraldarinnar eða sögu norrænna konunga, aldrei ort sum fegurstu ljóð, sem til eru, eða sungið betur en aðrir, aldrei átt listamenn yfirhöfuð, vísindamenn eða íþróttamenn, sem aðrir stóröfunda okkar af, heimsfræga forseta og stjórnmálamenn, sem setja mark sitt á veraldarsöguna, ­ bara ræktað og tamið þennan öðling, ­ íslenska hestinn, þá værum við einstök meðal þjóðanna. Svo eigum við auðvitað allt hitt líka," sagði ráðunauturinn og brosti brosi, sem breytir dimmu í dagsljós.

Gunnar sagði mér að í kynningu og markaðssetningu íslenska hestsins á meginlandinu hefði hann alltaf gætt þess að landið, þjóðin, sagan og menningin fylgdi með í umfjölluninni. Þess vegna ættu Íslendingar marga vini erlendis út á hvern gæðing, sem farið hefði yfir hafið. Og nú væru fleiri íslenskir hestar úti en til væru á Íslandi, og þætti þó ýmsum nóg um hér heima. En vináttan og aðdáunin á þjóðinni út á hestinn væri takmarkalaus.

Gunnar var þvílíkur fullhugi og eldhugi, að hann hreif alla með sér og orkaði það, sem honum datt í hug. Slíkir menn ryðja vegi, þar sem aðrir sjá tóma ófærð. Þegar brautin er lögð finnst svo öllum eðlilegt, að hún sé þar. Á undursamlegan hátt innrætti hann fólki hvort tveggja, ást á landi sínu og alþjóðahyggju.

Í hjarta sínu var stórmennið samt auðmjúkt og guðhrætt. Vildi öllum vel og þakklátur fyrir allt það góða, sem lífið færði honum.

Ég votta börnum, barnabörnum, ástvinum og ættingjum öllum mína dýpstu samúð. Algóður guð leggi Gunnar minn sér að hjarta og veiti honum sinn frið.

Guðlaugur Tryggvi Karlsson.