Gunnar Bjarnason "Eins og hindin, sem þráir vatnslindir, þráir sál mín þig, ó Guð. Sál mína þyrstir eftir Guði, hinum lifanda Guði. Hvenær mun ég fá að koma og birtast fyrir augliti Guðs?" (Sl. 42,3).

Þessi orð komu upp í hugann er ég ritaði hér örfá kveðjuorð í minningu míns kæra vinar og félaga Gunnars Bjarnasonar. Enginn var heitari í bænum sínum en hann að leita styrks og daglegrar handleiðslu hjá Guði. Enginn var sannfærðari en Gunnar um nálægð Guðs í öllu lífi okkar mannanna. Undir það síðasta ræddum við um Guð í ljósi trúarreynslu Gunnars og það voru mér forréttindi að sitja við fótskör hans og fá að hlusta á hann og njóta þessarar leiðsagnar hans á þessum vettvangi sem og öðrum.

Þessar línur eru kveðja og þakkir til góðs vinar en ekki upptalning á æviatriðum, enda gera aðrir þeim mun betri skil en ég. Mig langar þó að stikla á örfáum augnablikum í lífi okkar beggja og líta um öxl. Kynni mín af Gunnari Bjarnasyni hófust árið 1970 er ég var í menntaskóla og leitaði ráðlegginga hans um þau áform mín að kynnast erlendum hestamönnum. Ég hafði mikinn áhuga fyrir hestum og markaði fyrir íslenska hesta og hvernig best væri að afla sér sambanda og koma sér upp aðferðum til að byggja slíkt starf og þekkingu til framtíðar. Svar hans var hvorttveggja í senn hvatning og ráðlegging um að hefjast handa strax að skóla loknum. Í svarbréfi hans voru dýrmætar ábendingar sem leiddu til þess að við urðum samstarfsmenn og vinir á þessum vettvangi síðar og æ síðan.

Við áttum eftir að eignast sameiginlega vini, starfa að málefnum íslenska hestsins bæði heima og erlendis. Við unnum saman að hagsmunamálum hestamanna og störfuðum saman í erlendum samskiptum um árabil við að bæta og auka hróður íslenska hestsins. Þar hefur mikið starf verið unnið og nú hafa aðrir komið að málum sem sýnir að enn eru verkefnin næg. Samvinna okkar var með ágætum og stöðugt var haldið áfram og ný lönd unnin. Það var eldmóður Gunnars sem mestu réð um framvinduna og árangurinn lét ekki á sér standa. Allir hrifust með honum og hann lét einskis ófreistað til að vinna þessu málefni fylgi. Allir sem til hans þekktu vissu að slíkur eldmóður er ekki öllum gefinn og að andi hans og kraftur einkenndist af því, að málstaðurinn var helgaður íslenska hestinum "Skaparans meistarmynd" og þeirri menningararfleifð, sem hann var tengdur og tengir enn. Þessi ár voru mér dýrmæt reynsla, uppörvun og óþrjótandi gleði sem fólst í því að vera samferðamaður hans og meðreiðarsveinn. Hér var ég lærisveinn og hann meistarinn og ferð okkar hafði fyrirheit.

Þessi áratugur og næsti á undan var á sinn hátt blómatími í hestaútflutningi, en var ekki að sama skapi jafn ánægjulegur fyrir vin minn Gunnar. Fjölskylduhagir hans tóku breytingum og hann fór að hægja á í starfi og byrja nýtt upphaf á efri árum. Við höfðum félagsskap hvor af öðrum og samleið okkar einkenndist af föðurlegri hlýju hans í minn garð. Í samstarfi okkar bar engan skugga á og meðan Gunnar hafði krafta og heilsu var hann aðalhvatamaður að framsækni í markaðsmálum, sýningarhaldi og kynningum erlendis. Margt af því ber enn merki þess að Gunnar Bjarnason hafði með frumkvæði sínu og áræði komið því á legg og mótað upphafið. Hestamennskan og markaðurinn allur naut þess með ýmsum hætti. Landbúnaðurinn og hagsmunir bænda í heild voru hans ævistarf sem ráðunautur og áhuginn því tengdur.

Hann settist að lokum í helgan stein og fékk notalega vist á Dalbraut, en hugur hans var enn bundin við hið lifandi starf og hann naut þess að hafa tengsl við þann heim sem hann hafði skapað. Oft heimsótti ég hann á Dalbrautina. Við rifjuðum upp ýmsa þætti úr sögu hestaútflutnings, erlend samskipti og flesta þá merkisviðburði sem við áttum báðir kost á að upplifa. Menning og arfleifð íslenska hestsins var gróðursett í hjörtum hestamanna og ávextir þeirra fræja sem Gunnar gróðursetti voru L.H. og Landsmótin, FEIf og Evrópumótin, markaðir og stórsýningar með þátttöku íslenskra knapa, sem báru hróður íslenska hestsins um víða veröld. "Við hófanna snilld og leik og lag, fá löndin hjarta og sál", segir í kvæði Guðfinnu frá Hömrum. Þetta færði Gunnar öðrum þjóðum sem íslenska arfleifð og gaf öllum ríkulega sem vildu njóta með honum. Eldmóður hans var sem leiftur og oft var hann fylltur andagift og mælsku sem átti engan jafningja. Hann var sem spámaður á leið til hins fyrirheitna lands og hann hreif alla með sér. Aldrei vantaði úrræði.

Nú þegar Gunnar er horfinn af sjónarsviðinu verður tómlegt á meðan verið er að sætta sig við að hans nýtur ekki lengur við. Meðan hann lá veikur og naut umönnunar hjúkrunarfólks gat ég heimsótt hann og við sátum saman og spjölluðum. Enn var glampi í augum og áhugi fyrir því að frétta af vinum og samferðamönnum, málefnum og nýjungum. Við ræddum mikið um bækur hans og frásagnir af mönnum og hestum. Þann tíma sem við áttum saman við þessar aðstæður var ég við nám í Guðfræðideild. Ég man er ég kom til hans á Dalbraut nýinnritaður í deildina og bað hann að draga "mannakorn" fyrir mig. Það eru litlir miðar með ritningarversum í Biblíunni. Hann gladdist mjög fyrir mína hönd yfir þessari ákvörðun minni að verða prestur og dró vers úr spádómsbók Jesaja: 41:18­20. Yfirskriftin var að "Guð mun láta eyðimörkina blómgast". Varla var hægt að fá betri texta. Þessu versi fylgdi hann síðan eftir með bæn. Þetta varð að fastri reglu á milli okkar. Fjögur ár liðu hratt og mín stærsta stund var að geta komið til hans í apríl sl. sem nývígður prestur. Við ræddum saman og ég sat við rúmið hans og dró fyrir hann mannakornið. Hann fékk versið með tilvitnuninni sem er upphaf greinar minnar. Enn hafði Líkaböng þó ekki hringt sitt seinasta högg, en við vissum báðir að það kæmi. Við nýttum frestinn vel og hittumst af og til sem fyrr.

Nú hefur Líkaþöng glumið svo um munar. Með hljómi hennar hefur hetja fallið. Hetja stórræða, hetja áræðis. Hetja sem stóð ávallt fremst í bardaganum og kunni að sveifla brandi. Orð og athafnir voru fyllt eldmóði augnabliksins. Margt var sagt í hita leiksins málefni til stuðnings. Oft var talað spámannlegri röddu og stundum sveið undan. En ávallt var grunnt í hið góða sem einkenndi fas hetjunnar miklu og í brjósti hans sló hlýtt hjarta sem oft var ákaft. Hann vildi koma miklu í verk áður en síðasta dagsverkið yrði unnið. Nú renna fyrir hugskotssjónum liðnir atburðir af unnum frægðarverkum og allt er með slíkri hugljómun, að líkja má við eitt stórkostlegt ævintýri. Ævintýrin urðu að raunveruleika og gefa af sér ný ævintýri. Við sem sáum hetjuna ríða fram að hinstu sjónarrönd, vitum ekki hvernig við getum þakað fyrir gleðina yfir samferðamanninum. Hann skilur eftir sig ævintýraljóma og var kóngur um stund. Hann sat á stóli frægðar sinnar og hafði álfur og lönd sem lutu honum. Hann sigraði ríki með hesti sínum sem hafði tign og frjálst fas og veitti mörgum ólgandi gleði og lífsfyllingu. Það var frelsi og ferskur andblær á vígreifum stundum sýninga og sigra. Það var frelsi í faxins hvin, við fákanna hófadyn. Hetjan mín lifir áfram í minningum hugans og frásögnum þeim sem hann skráði eigin hendi og færði samferðamönnum og vinum. Merkið stendur þótt maðurinn falli.

Nú að leiðarlokum þegar við eigum ekki lengur þau augnablik í lifanda lífi, sem við áttum, er við sátum saman, fyllist hugur minn þakklæti yfir því sem ég fékk notið í samfylgd þinni kæri vinur. Bænir þínar og blessanir sem þú gafst mér verða aldrei nægilega endurgoldnar. Sú vegsemd að hafa átt þig sem vin verður seint fullþökkuð. Við vitum báðir að sá sem öllu ræður, Guð kærleikans og eilífa lífsins, er fullur miskunnar og elsku. Hann heyrir bænir okkar og þakkir. Hans eilífa ljós hefur nú umvafið þig birtu sinni og tekið þig í samfélag sitt, sem þeir einir kunna að meta sem elska frelsarann Jesú Krist og gera hann að athvarfi sínu. Hann er athvarf þitt og mitt en þú ert nær honum nú og hefur fengið að sjá auglit hans og lind hans svalar þorsta þínum. Þrá þín er fullnuð. Kveðja okkar er aðeins fátækleg orð, en orð Jesú standa sem segir: "Trú þín hefur frelsað þig. Far þú í friði."

Við hjónin sendum ástvinum og aðstandendum okkar innilegustu samúðarkveðjur er við kveðjum mætan og genginn vin.

Sigurður Rúnar Ragnarsson og Ragnheiður Hall.