Gunnar Bjarnason "Þú sverfur og sverfur en nærð mér aldri á fluginu." (M.Joch).

Þessu svaraði skáldið ábendingu um að ljóðin ætti að snurfusa og vanda.

Sá er fer með brandi orðsins og vill framfarir, hann læðist ekki með löndum heldur gnæfir yfir með hvatningu og mælsku. Hann er hrópandinn.

Samferðamenn setur hljóða fyrst en þurfa síðan að mótmæla og tína til alls kyns ómerkilegt svo úr verði andsvar.

Brautryðjandinn færir steina úr stað, þá geta aðrir fótað sig á vegi. Síðar er vegurinn jafnaður og fyllt í holur.

Það eru einhver mannleg viðbrögð að gera þann er fyrstur fór tortryggilegan og varast að skipa honum í fylkingarbrjóst.

Arnsúgurinn er mikilfenglegur. En aðrir fuglar hræðast hann.

Á kveðjustund minnumst við þess sem skar sig úr fjöldanum. Var langt yfir miðlungsmarkinu, meiri en flestir samferðamenn til vitsmuna og veru.

Gunnar Bjarnason var af sterkum stofni kominn. Margt af því fólki hefir frekar viljað sjá glæsispretti en dóla yfir hlutunum.

Að ferðalokum er rétt að horfa um stund yfir sviðið. Áhrif Gunnars Bjarnasonar á íslenska hestamennsku, ræktunarstarf og sess hestsins í nútímanum eru augljós sannindi, samanburður við upphafið og glæstar sýningar nú eru fráleitar. Merkinu hefir verið haldið á lofti.

Deilur manna á milli eru aukaatriði. Hugsjónir haldast betur vakandi en ef lognið leggst yfir.

Það er takmörkuð speki að gleyma upphafinu.

Ræktun reiðhestsins kom í hlut Gunnars. Hann tók við embætti hrossaræktarráðunauts sama ár og þjóðir heims runnu saman í stríði. Íslendingar sáu peninga fyrst fyrir vinnu sína svo gagn væri að.

Dráttarvélin var ekki nema nokkur ár að leysa hestinn af hólmi. Jeppinn var e.t.v. enn skæðari. Lán okkar liggur í því að sannur byltingarmaður reisti merki sitt svo fagmannlega að bæði hesturinn og jeppinn hafa tekið miklum framförum.

Nokkrir voru þeir er héldu í horfinu, hestamennska og ræktunarstarf hafa aldrei lognast út af. Ráðunauturinn ungi hafði fast undir fæti en um tíma varla meira en sem svarar stiklunum á breiðu vaði.

Við þessar aðstæður var verk Gunnars Bjarnasonar að hvetja fólk til hestamennsku og að rækta reiðhestinn.

Á miðjum starfstíma ráðunautarins var komið í framkvæmd fyrsta landsmóti hestamanna. Nú sem áður var hugsað hátt. Fólkið í landinu og íslenski hesturinn eiga saman einn stað öðrum fremur. ­ Þingvelli.

Ekki einasta er Gunnar Bjarnason baráttumaður fyrir umráðum hestamanna yfir Skógarhólum, hann stikaði það út.

Þannig var farið að því að gera landsmótsstað. Girt og völlur gerður. Landnámið jaðraði við landtöku. ­ Síðan var farið að semja við íhaldssemina sjálfa. Þingvallanefnd.

Að þessu máli fylgdu Gunnari góðir og kappsamir menn. Nú var ekki stigið honum á tær. Þessi landsmótsstaður er nú áningastaður hestamanna í ferðum. Endurbætur hafa verið gerðar og eru LH til hins mesta sóma. Við getum sagt með sanni: Heim að Skógarhólum.

Nú æjum við fyrst ögn

áður söng og hófahljóði

förum rjúfa fjallaþögn.

(HH) Ákvörðun hefir verið tekin um að reisa íslenska hestinum minnisvarða á Skógarhólum.

Skáldfákurinn greyptur í grjót og merkið helgað brautryðjandanum Gunnari Bjarnasyni.

Leggjum því máli lið og látum ekki lenda í undandrætti. Það er engin virðing við þann sem merkið hóf að láta hlutina dragast eða sofna í nefnd.

Gunnar Bjarnason gerði strandhögg. Lauk námi við landbúnaðarháskóla Dana. Vakti áhuga erlendra manna á íslenska hestinum og útflutningur hófst á reiðhestum.

Þarna hafði hann auðvitað storminn í fangið. Náði því sem varð honum til hláturs að vera kallaður landráðamaður.

Þarna fór almenn skoðun, hestar færu ekki úr landi með óskert kynfæri.

Viðurkenningar hlaut Gunnar. Riddari Fálkaorðunnar. Gullmerki LH. Erlendir unnendur hestsins sem Gunnari Bjarnasyni var svo lagið að lýsa á hrífandi hátt sýndu honum ávallt sóma. Hann varð víða um lönd heiðursfélagi þeirra félaga og klúbba sem hann hafði raunar stofnað sjálfur.

Allar þessar viðurkenningar hafa verið réttar með alhug, nema ein.

Forseti Íslands, skólabróðir og vinur Gunnars, sagðist þurfa að kynna honum að krossinn væri fyrir störf í embætti.

Langt geta hlutirnir gengið og lágt lotið, ef erfitt er að viðurkenna hlut þess er ruddi veginn þá grjót hafði á hann fallið við breytta þjóðfélagshætti.

Gunnar Bjarnason var glæsimenni að öllu útliti og meistari orðsins. Rómurinn mikill yfir málinu. Í raun áróðursmeistari sem lyfti löndum sínum til dáða og talaði tungum á erlendri grund. Útflutningur íslenska reiðhestsins var hafinn.

Eftir Gunnar liggur stórvirki í bókum og ritgerðum.

Gunnar Bjarnason batt ekki bagga sína sömu hnútum og fjöldinn. Vegna þess verður hann okkur minnisverður og raunar vegvísir. Svo er ekki annað eftir en reisa merkið. Gera það með þeim hætti að minningu hans sé sómi að og okkur hinum til hugbóta.

Hinn væni vinnumaður hefir verið kallaður af velli heim. Þar dugðu ekki önnur amboð en ný í stað þeirra fúnu er hrukku sundur í höndum hans.

Kvaddur er eldhuginn sem átti hin sterku vængjatök. Það er svo annara að snurfusa og sverfa þar til ekki sér til samskeyta.

Friður sé með ættfólki og þeim er næst stóðu Gunnari Bjarnasyni.

Björn Sigurðsson.