Guðmundur Guðnason Haustið er tími uppskeru og eftirtekju sumarsins. Haustið er tími fjallaferða, gangna og rétta. Tími fagurra lita blandið eftirvæntingu og söknuði. Um það leyti sem Fljótshlíðingar voru að leggja af stað í eina af fyrstu göngum haustins bárust þær fregnir að góðbóndinn frá Fögruhlíð Guðmundur Guðnason væri látinn á áttugasta og níunda aldursári. Minningar um þennan söngna sómamann leita á hugann. Mínar fyrstu bernskuminningar um Guðmund eru frá álfadansi og álfabrennu við Goðaland í Fljótshlíð á þrettándanum. Þar var Guðmundur í gervi álfakonungs og var forsöngvari ásamt Helga Jónssyni frá Bollakoti þar sem þeir félagarnir hrifu þátttakendur og áhorfendur með sér í söng og héldu þar með uppi gamalli hefð í íslenskri sveitamenningu sem enn er haldið við. Móðir mín er úr Fljótshlíðinni og það þótti nauðsynlegur þáttur í lok jólahalds að vera við álfadansinn og mikið þótti mér til koma að fylgjast með þessari miklu hátíð í sveitinni. Guðmundur var mikill Fljótshlíðingur og voru átthagarnir honum afar kærir. Hann byggði upp ásamt konu sinni, Sigurlaugu Guðjónsdóttur frá Tungu í Fljótshlíð, býlið Fögruhlíð í landi Kotmúla þar sem Guðmundur var fæddur og foreldrar hans bjuggu. Guðmundi og Sigurlaugu varð fjögurra barna auðið sem bera foreldrum sínum fagurt vitni og eins er um afkomendahópinn.

Mikil vinátta var milli Guðjóns Jónssonar og eiginkonu hans Lilju Árnadóttur, móðursystur minnar, sem bjuggu í næsta húsi við mig á Hvolsvelli en sú vinátta leiddi til þess að ég dvaldi vorlangt í Fögruhlíð til aðstoðar í sauðburði og við önnur vorverk. Gott var og skemmtilegt að vera í Fögruhlíð og þar kynntist ég þessum tryggu hjónum mætavel. Þennan litla greiða fékk ég margendurgoldinn og nú síðast þegar ég fór í framboð í alþingiskosningum. Þar átti ég aldeildis hauka í horni en þá voru þau hjón flutt á Dvalarheimilið Kirkjuhvol á Hvolsvelli. Þeir vinirnir Guðmundur og Hallgrímur bóndi á Ásvelli gengu milli manna og söfnuðu meðmælendum, hvöttu mig til dáða, sögðu að það væri nú annaðhvort að styðja Fljótshlíðinginn í kosningabaráttunni. Það var gott að eiga þessa vönduðu og traustu heiðursmenn að.

Eins og haustið er uppskerutímabil sumarsins og menn gleðjast yfir góðri uppskeru er það foreldrum mikið ánægjuefni að eignast efnileg og heilbrigð börn og barnabörn. Þetta á við um þau Sigurlaugu og Guðmund heitinn. Erfðaeinkennin leyna sér ekki, börnin eru máttarstólpar kirkjukóra í héraði og tónlistaráhuginn og hæfileikar erfast til barnabarnanna. Þannig semur Hlynur Theodórsson, góðbóndi á Voðmúlastöðum, lög fyrir Karlakór Rangæinga og Guðmundur Svavarsson, oddviti Hvolhrepps, hefur tekið við hlutverki afa síns og leiðir söng við álfabrennu við Goðaland. Þannig heldur lífið áfram.

Guðmundur Guðnason hefur skilað góðu dagsverki með sæmd. Eftir lifa minningarnar um góðan og félagslyndan heiðursmann sem sómdi sér vel sem farsæll bóndi sem lifði og starfaði í sinni gróðursælu sveit. Slíkir synir lifa í minningunni um bjarta daga.

Ísólfur Gylfi Pálmason.