Gunnar Bjarnason Kveðja frá Félagi hrossabænda

Einn merkasti maður í sögu hrossaræktar og kynningu íslenska hestsins er fallinn. Ekki er ætlun mín að rekja feril Gunnars Bjarnasonar hér en afrek hans í þágu hrossaræktenda á Íslandi eru óteljandi. Ég kynntist Gunnari sjálf ekki fyrr en ég tók til starfa fyrir Félag hrossabænda fyrir rúmum tveimur árum. Þá hafði ég lesið um þennan merka mann og fylgst með verkum hans frá barnsaldri og þótti því mikið til um þegar hann bankaði upp á hjá mér einn morguninn og bauð mig velkomna til starfa. Handtak hans var þétt og ekki er því að neita að mér hafi þótt nóg um þegar hann spurði mig hvernig væri að vera komin í skóna hans. Ég svaraði því til að það væri spennandi, en innst inni hugsaði ég að sama væri hvað ég legði á mig og næði fram í nýju starfi, aldrei myndi ég passa í skóna hans Gunnars Bjarnasonar. Gunnar var þá um áttrætt og hafði enn fyrir sið að koma akandi í morgunkaffi í Bændahöllina. Oft heimsótti hann mig og ræddi markaðssetningu íslenska hestsins, þessa fjársjóðs sem honum var svo í mun að kynna fyrir heimsbyggðinni allri. Mér þótti vænt um þessar morgunheimsóknir og oft fórum við á flug í hugmyndum um aðferðir við að koma íslenska gæðingnum á framfæri. Eldmóður og leiftrandi hugmyndaauðgi einkenndi alla framsetningu Gunnars og auðvelt var að sjá hvernig hann hefur sannfært fólk um ágæti hestakyns okkar í gegnum tíðina. Sögur Gunnars af upphafi markaðssetningar erlendis eru ógleymanlegar og ævintýri eins og ferð nokkurra knapa á íslenskum hestum yfir gervöll Bandaríkin árið 1976 eru ótrúleg.

Af Gunnari gustaði alla tíð og eins og hann segir sjálfur á bls. 13. í 1. bindi Ættbókar og sögu íslenska hestsins var sjaldan lognmolla í kringum hann: "Oft hefur loft verið lævi blandið; skoðanamunur og átök; fólk hefur staðið í hópum saman í freyðandi brimgarði geðhrifa; menn hafa orðið fjandmenn á stund dómsúrskurðar, og aðrir hafa bundist hlýjum vináttuböndum í bili á friðsælum stöðum í jaðri litríkra og ólgandi hestaþinga." Þannig var Gunnar Bjarnason, ákveðinn eldhugi, umdeildur maður sem, að öðrum ólöstuðum, stóð að baki kynningu íslenska reiðhestsins fyrir heimsbyggðinni og lagði þannig grunninn að uppbyggingu hinnar miklu atvinnugreinar sem hrossaræktin og hestamennskan er orðin í dag.

Fyrir hönd Félags hrossabænda þakka ég Gunnari hans ómetanlega framlag í þágu hrossaræktar á Íslandi og sendi börnum Gunnars og öðrum aðstandendum samúðarkveðjur.

Hulda G. Geirsdóttir.