Guðmundur Gunnarsson Þeim fækkar óðum bændunum af kynslóðinni sem færði búskaparhætti í sveitum frá því að einkennast af erfiðisvinnu og handverkfærum til þeirra vélvæddu búskaparaðferða sem við þekkjum í dag. Þeir hófu sinn búskap með hesta og handverkfæri að vopni og beittu þeim óspart til að yrkja jörðina, byggja upp og búa í haginn fyrir fjölskyldur sínar og komandi kynslóðir. Þegar þessir sömu menn hætta búskap horfa þeir yfir farinn veg. Kargaþýfður móinn og ógróinn aurinn eru nú slétt tún þar sem einn maður með stórvirk tæki afkastar á stundarkorni því sem áður tók heimilisfólkið margra daga streð og basl. Ánum og kúnum sem áður voru fyrst og fremst til búsþarfa fyrir bóndann og fjölskyldu hans hefur fjölgað til muna og afurðirnar fara til að metta munna þéttbýlisbúa. Torfkofinn sem áður hýsti skepnurnar hefur verið jafnaður við jörðu og steinsteypt mannvirki með vélgengum áburðarkjallara hafa leyst hann af hólmi.

Einn af þessum bændum var afi minn Guðmundur bóndi í Fögruhlíð. Hann fékk helming Kotmúlajarðarinnar og stofnaði ásamt ömmu minni Sigurlaugu, nýbýlið Fögruhlíð árið 1936. Það þurfti kjark, dugnað og áræði til að hefja búskap á nýbýli. Það varð að byrja á því að byggja upp öll hús, jafnt til íbúðar og fyrir skepnurnar. Ræsa þurfti fram mýrarnar, græða upp aurana, skera ofan af þýfinu og gera móann að sléttu túni. Það þurfti líka að girða túnin og koma sér upp bústofni. Allt þetta gerðu ungu hjónin í Fögruhlíð. Með samheldni og með því að gera ekki miklar kröfur tókst þeim hægum en öruggum skrefum ætlunarverk sitt og bjuggu þau alla tíð snotru búi.

Afi var bóndi í orðsins fyllstu merkingu. Hann vissi að lykillinn að góðum árangri í búskapnum var að fara vel með skepnur. Hafa ávallt á boðstólum nóg af góðu fóðri og gott húsaskjól. Er mér minnisstætt að stundum keypti hann úrvals töðu til að eiga handa ánum um sauðburðinn þótt hlöður í Fögruhlíð væru hálffullar af heyi sem sumum hefði þótt full boðlegt. Þannig fengust hámarksafurðir eftir hvern grip og þar með viðunandi afkoma þótt búið væri ekki stórt á nútíma mælikvarða. Afi lagði metnað sinn í að framleiða aðeins úrvals vöru og eru margar viðurkenningar frá Mjólkurbúi Flóamanna fyrir framleiðslu á úrvals mjólk til vitnis um það.

Þótt góður árangur næðist í kúabúskapnum með natni og góðri umhirðu tel ég að afi hafi alla tíð haft meiri ánægju af sauðfénu. Hann hafði yndi af öllu því sem viðkom kindunum. Svo sem títt er um bændur þekkti hann allar ærnar með nafni og oft furðaði ég mig á því hvernig hann gat þekkt kindurnar sínar úr fjárhóp á löngu færi. Jafnvel gat hann sagt til um, úr fjarlægð hver ætti ókunnar kindur, þótt ekki sæi hann markið. Afi gerði sér far um að kynbæta fjárstofn sinn og náði góðum árangri. Var hann einn af stofnendum sauðfjárræktarfélagsins Hnífils árið 1943.

Ferðir á Þórsmörk og Fljótshlíðarafrétt í smalamennskur og kindastúss voru honum hugleiknar og þá var gott að vera vel ríðandi. Hann þekkti sig vel í afréttinum, var heillaður af náttúrufegurð hans og naut þess að sinna þar fé, haust og vor, ásamt góðum grönnum og vinum. Minntist hann þess oft hve glatt var á hjalla, þegar menn komu saman í náttstað og slógu á létta strengi að afloknu erfiði dagsins. Það sýnir vel hversu fjallferðir voru honum hugleiknar að þegar ég heimsótti hann daginn fyrir andlátið, þá mikið veikan, var hann með hugann við fjallferð Fljótshlíðinga þann sama dag og gerði grín að mér fyrir að eiga hvorki hest né hnakk og geta þar af leiðandi ekki riðið til fjalls.

Forðagæslu í Fljótshlíðarhreppi sinnti afi um árabil og tel ég hann yfirleitt hafa notið trausts og virðingar sveitunga sinna í því starfi. Hann hikaði ekki við að segja meiningu sína þætti honum búfénaður vanhirtur eða illa fóðraður. Fyrir kom að mönnum mislíkuðu aðfinnslur hans í fyrstu. Síðar var honum þakkað þegar þessir sömu menn fundu hvað miklu skemmtilegra er að eiga og umgangast skepnur sem líður vel og gefa góðar afurðir. Um margra ára skeið sinnti afi einnig garnaveikibólusetningu í hreppnum.

Tónlist var í hávegum höfð á æskuheimilinu Kotmúla. Ungur að aldri lærði afi að leika á harmoniku. Varð hann fljótlega eftirsóttur harmonikuleikari á dansleikjum víða í Rangárvallasýslu, ýmist einn eða með öðrum. Hann sagði oft frá ýmsu í þessu sambandi og var honum sérstaklega minnisstæð erfið ferð að Krossi í Landeyjum. Hann tók harmonikuna á bakið og gekk með hana niður að Krossi. Þar var spilað á balli fram eftir nóttu og nikkan svo tekin á bakið og gengið heim. Farið var yfir Þverá á Teigsvaði og yfir fleiri óbrúuð vatnsföll að fara í báðum leiðum. Má gera ráð fyrir að ferðalagið hafi tekið a.m.k. 4-5 tíma hvora leið. Söngur var afa líka í blóð borinn og hafði hann mikla og djúpa bassarödd. Hann var einn af stofnendum Kirkjukórs Fljótshlíðar og söng með kórnum og gegndi þar formennsku um áratugaskeið. Margir minnast hans einnig sem forsöngvara og álfakóngs við árlegan álfadans UMF Þórsmerkur. Þá tók hann þátt í uppfærslu leikrita í Fljótshlíð á yngri árum.

Það var lærdómsríkt og viss forréttindi að vera samvistum við afa í starfi og leik. Hann bar umhyggju gagnvart vinum og fjölskyldu og var ávallt boðinn og búinn að rétta hjálparhönd þeim sem á þurftu að halda. Afi bar virðingu fyrir skepnum sínum og jörð, hafði yfir að búa reynslu og verkkunnáttu sem nauðsynleg er hverjum bónda og var fljótur að tileinka sér nýjungar og ný vinnubrögð við búskapinn. Hann hikaði ekki við að segja skoðanir sínar umbúðalaust og þótt stundum hvessti var dottið á dúnalogn áður en við var litið. Afi var nefnilega glettinn og gamansamur að eðlisfari og sá oftast spaugilegu hliðarnar á mönnum og málefnum.

Ég var svo heppinn að vera þess aðnjótandi að dveljast löngum í Fögruhlíð á uppvaxtarárum mínum og eiga þar heimili. Sú dvöl hefur reynst mér gott veganesti á lífsbrautinni. Fyrir góðar stundir og umhyggju fyrir mér og fjölskyldu minni, fyrr og síðar mun ég ævinlega verða þakklátur.

Söknuðurinn er sár, er ég minnist afa míns og nafna, Guðmundar Guðnasonar, bónda í Fögruhlíð á kveðjustund. Blessuð sé minning hans.

Innilegar samúðarkveðjur til ömmu, barna hennar og fjölskyldna þeirra frá okkur í Norðurgarði 19.

Guðmundur Svavarsson.



$$$$