Guðmundur Guðnason Það var klukkan rúmlega tíu að kveldi laugardagsins 12. september sl. að sonur minn hringdi og tjáði mér að tengdafaðir minn væri látinn. Það kom ekki á óvart, ég vissi að hverju dró og hafði mér auðnast að kveðja hann í hinsta sinn þann sama dag. Minningarnar tóku að sækja á huga minn, hver af annarri.

Ég var svo lánsamur að kynnast þessum góða manni fyrir u.þ.b. 40 árum, en þá hafði ég kynnst konu minni Steinunni. Frá fyrstu tíð var mér tekið eins og ég væri sonur hans og þeirra hjóna beggja. Ég minnist þess hve hann var einstaklega umhyggjusamur og greiðvikinn var hann með eindæmum. Það var ósjaldan ef fjölskyldan þurfti að fara eitthvað af bæ að hann sagði: "Takið þið bílinn minn, ég vil endilega að þið notið hann eftir þörfum." Svona var um allt annað, sem hann gat og vildi fyrir okkur gera og of langt mál væri að tíunda hér.

Margir töldu tengdaföður minn skapríkan, en ekki minnist ég þess að okkur hafi nokkurn tíma orðið sundurorða. Hann var sérstaklega glettinn og gamansamur að eðlisfari. Er mér minnisstætt eitt af fyrstu skiptunum sem ég kom að Fögruhlíð. Fyrir dyrum var árlegur álfadans í Fljótshlíðinni. Mun hann hafa verið forsöngvari í því tilfelli eins og svo oft áður. Við hjónaleysin vorum að tygja okkur í grímubúningana og í þann mund er við leggjum af stað grípur hann prik og færir mér. Segir það gott fyrir gervið. Daginn eftir erum við heima í Fögruhlíð. Guðmundur er að koma einhvers staðar að og segist hafa hitt menn sem voru að kvarta yfir fjósalykt þarna á álfadansinum og lítur á mig með sínu alkunna glettnisbrosi. Bætir síðan við: "Það var víst af prikinu mínu. Ég notaði það til einhverra hluta í fjósinu." Ég man enn hlátur viðstaddra þegar hann læddi þessu út úr sér eins og honum einum var lagið. Ég var hálfvandræðalegur, en lærði fljótt að meta gamansemi hans.

Guðmundur var góður bóndi og ræktunarmaður mikill á bústofni og jörð. Hann telst hafa verið framfarasinnaður um allt það er að búskap laut. Fjárræktin var honum sérstaklega hugleikin og einkar skemmtilegt var að vinna með honum að smalamennsku og umgangast féð. Þá kom þetta skemmtilega blik í augun eins og ávallt er honum hljóp kapp í kinn. Hann var hamhleypa til vinnu og vann verk sín af trúmennsku.

Þeim fækkar óðum, sem fremstir stóðu,

sem fögnuðu vori í grænni hlíð,

stríðustu straumvötnin óðu

og storkuðu frosti og hríð,

lyftu þegjandi þyngstu tökum,

þorðu að berjast við lífskjör hörð. ­

Þeir hnigu bognir í bökum

að brjósti þér, ættarjörð.

(Davíð Stef.) Margt fleira gæti ég talið upp um ágæti og heiðarleika Guðmundar tengdaföður míns. Ég tel það hafa verið mikil forréttindi að hafa fengið að feta með honum hluta þess lífsspalar sem nú er á enda. Minn er heiðurinn að hafa átt hann að vini. Ég kveð hann nú með þakklæti fyrir uppeldi Guðmundar sonar okkar hjóna, samfylgdina og allt það góða sem hann gerði fyrir mig og fjölskyldu mína í gegnum árin.

Ég votta Sigurlaugu tengdamóður minni og fjölskyldunni allri mína dýpstu samúð.

Svavar Guðlaugsson.