RAGNAR GUÐMUNDSSON

Ragnar fæddist í Ásbúð í Hafnarfirði 29. júní 1903. Hann var sonur hjónanna Guðmundar Sigvaldssonar útvegsbónda og Kristbjargar Ólafsdóttur frá Garði í Görðum. Hann var næstyngstur sex systkina og lifði hann þau öll. Hann átti uppeldisbróður, Eirík Sæmundsson, og er hann á lífi. Hinn 4. nóvember 1929 gekk hann að eiga lífsförunaut sinn Regínu Magnúsdóttur frá Kirkjubóli. Þau eignuðust þrjú börn. 1) Magnús, f. 30.11. 1928, d. 21.5. 1996, fyrri kona hans var Gíslína Jónsdóttir og eignuðust þau þrjú börn: Regínu, Maríu og Sigríði. Seinni kona hans var Sigurlaug Guðmundsdóttir og eignuðust þau fjögur börn: Sigrúnu, Magnús, Grétar og Baldur. 2) Guðbjörg, f. 3.2. 1930. Fyrri maður hennar var Haraldur Gíslason sem nú er látinn. Þau eignuðust fjögur börn: Ragnar, Gísla, Margréti og Harald sem er látinn. Seinni maður hennar var Gunnar Bjarnason, sem nú er látinn. Þau eignuðust tvö börn, Gunnar Ásgeir og Regínu Sólveigu. 3) Garðar Lárus, f. 21.8. 1931, kvæntur Önnu Guðjónsdóttur og eiga þau þrjú börn: Hlyn, Regínu og Ragnar. Afkomendur Ragnars og Regínu eru um 60 talsins. Ragnar ólst upp í Hafnarfirði og stundaði nám í Flensborgarskólanum. Hann lauk verslunarprófi frá Verslunarskólanum í Reykjavík. Útför Ragnars fór fram frá Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu 11. september.