Ragnar Guðmundsson Það sem fyrst kemur upp í huga mér við andlát afa er þakklæti. Ég er þakklátur afa fyrir að hafa fengið tækifæri til þess að kynnast, sjá og örlítið að upplifa þá reynslu, þekkingu og sýn sem afi hafði öðlast á langri æfi sinni. Afi var frá Ásbúð í Hafnarfirði, fæddur árið 1903, af þessari aldamótakynslóð Íslendinga sem svo fáir eru eftir af. Sennilega hafa mjög fáar þjóðir eða einstaklingar gengið í gegnum slíkar breytingar á einni öld sem við Íslendingar á sviði menntunar, viðskipta og framþróunar í hverri mynd sem hún er svo sem fólgin í á þessari öld, í átt til aukinnar velsældar, menntunar og velmegunar. Þegar afi ólst upp í Hafnarfirði þá var bærinn ekki stór, fjölskyldan var stór, börnin voru mörg, oft var erfitt að brauðfæða og gefa skjól, lífið var erfitt, tilfinningar ekki á borð bornar, nei, það skyldi halda sínu til þess að lifa af, til þess að afkomendur gætu horft fram á við, beislað kraftinn. Oft var lítið um peninga í umferð, en í staðinn enn meira af allskonar sjávarfangi sem útvegsfólk við sjávarsíðuna hafði fangað, þetta var skiptimynt fyrir marga til að halda áfram. Svona var lífið hjá mörgum við upphaf þessarar aldar, ég hygg að það hafi ekki verið öðruvísi hjá afa Ragnari, nema ef vera skyldi að slík umsýsla nauðsynlegra hluta hafi markað upphaf áhuga afa á frekari viðskiptum. Afi kláraði menntun sína frá Flensborgarskóla, sem hefur þótt nokkuð gott á sínum tíma, hann lærði allvel ensku á þessum tíma, meðal annars af enskum togarasjómönnum, sem komu til Hafnarfjarðar, hann varð jafnvel svo vel metinn, að hann fékk að kokka ofan í mannskapinn við einhver tækifæri, en því hefur verið fleygt fram að aðallega var um skyrhræring og plokkfisk að ræða, og víst hefur hann bragðast vel fyrir hungraðan mann. Ásamt skólagöngu sinni í Flensborg gekk afi í verslunarskóla Reykjavíkur og kláraði nám sitt þaðan. Afi var mjög lánsamur er hann kynntist ömmu minni Regínu Magnúsdóttur frá Kirkjubóli við Laugarnesveg í Reykjavík. Saman stóðu þau sem eitt allt þar til amma lést í júlí 1991. Þau eignuðust 3 börn, Magnús, sem lést 1996, Guðbjörgu og Garðar. Afi talaði stundum um þá daga þegar hann var sölumaður hjá Nóa, Siríusi og Hreini sem þá hét, og fleirum, með skemmtilegum tón, mikið var stundum selt og greinilega hefur ekki verið slæmt að hafa slíkan brautryðjanda í fyrirtæki sem var að koma starfsemi sinni á traustan grunn. Ég efast ekki um söluhæfileikann, stutt var í glensið ef því var að skipta hjá afa, þá voru tímarnir einnig aðrir, sölumenn ferðuðust á skipum milli hafna landsins og seldu varning sinn, seinna komu bílarnir til sögunnar og þá var ferðast um landið með töskurnar, sýnishornin og selt fyrir næstu 3­6 mánuði, ef það vantaði í kassann við afgreiðslu þá var fyllt upp í hann. Afi stofnaði heildverslun Ragnar Guðmundsson í kringum 1940 ásamt öðrum, á milli 1940­50 reyndi hann einnig fyrir sér í útgerð sem á þeim tíma virtist vera uppgangstími en hann var ekki lánsamur í útgerðinni og erfiðir tímar tóku við því mikið var lagt undir. Í kringum 1950 breytist margt hjá afa og ömmu. Þau öðlast frelsið, trúna á Jesú, ekki eingöngu barnatrúna, heldur lifandi daglega trú. Þegar erfiðleikarnir eru sem mestir þá er hjálpin næst. Afi var stoltur af því að vera hvítasunnumaður í nærri 50 ár, hann tók þátt í uppbyggingu Hvítasunnusafnaðarins Fíladelfíu alla sína tíð bæði með eigin vinnuframlagi sem sparisjóðsstjóri Pundsins mestallan þann tíma sem hann var rekinn af söfnuðinum og með öðrum framlögum.

Eins og nærri má geta þá var fólk sem gerðist hvítasunnumenn á miðri öldinni talið allt öðruvísi heldur en venjulegt annað fólk. Jafnvel svo að nú á seinni tímum undrast jafnvel menn þvílíka fordóma þetta fólk, sem var brautryðjendur, þurfti að sæta. Sem betur fer eru þessir fordómar ekki jafn miklir og þeir voru þá.

Að lokum, afi minn, langar mig til að þakka þér fyrir samfylgdina, góð ráð, hlýjan hug og allar bænirnar sem þú og amma lögðuð okkur til.

Magnús Magnússon.