Eiríkur Björnsson Afi minn Eiríkur Björnsson í Svínadal er látinn. Ég vil með þessum fáu línum kveðja þig, afi minn. Nafn þitt var sjaldnast nefnt án þess að því fylgdi með nafn Svínadals en þar varst þú fæddur aldamótaárið 1900 og bjóst þar allan þinn aldur og vildir hvergi annarsstaðar vera þótt þú værir búinn að fara víða um land í störfum þínum við virkjanir vatnsfalla fyrir hina og aðra. Þó að þú værir búinn að upplifa meiri breytingu en nokkur önnur kynslóð hefur upplifað frá landnámi þá var ekki á þér að heyra að þú værir nokkuð að dragast aftur úr í hugmyndum um umbætur og uppfinningar heldur var eins og þú efldist allur og fyndist ekkert ómögulegt. Enda hefur það oft rifjast upp fyrir mér þegar þú sagðir mér hvað þér fannst stórkostlegt þegar þú sást í fyrsta skipti járnsög og hvað þig dreymdi um slíkan grip, hversu mikið þú myndir geta smíðað ef þú einhvern tímann eignaðist slíkan galdragrip. Þetta kannski sýnir hvernig aðstaðan var í upphafi þegar þú ungur maður varst að byrja að smíða úr járni ýmsa hluti til að létta störfin, en það varð ævistarf þitt.

Rafvirkjameistari varstu að mennt en hana hlaustu hjá Bjarna í Hólmi en engan annan man ég eftir að þú talaðir um af annarri eins virðingu, ekki svo að skilja að þú talaðir illa um nokkurn mann því hófsemi, nægjusemi, prúðmennska og þrautseigja var það sterkasta í fari þínu. Þrautseigjan að láta aldrei bugast hvað sem gekk á heldur að vinna hverja hindrun til þess að halda ótrauður áfram.

Það voru menn eins og þú sem færðu okkur fram á veginn í þessu tæknivædda nútíma neyslusamfélagi. Túrbínusmíði til virkjana í læki og vatnsföll lá fyrir þér eins og opin bók og ég minnist þess þegar þú varst að reikna út á blaðsnifsi með blýantsstubbi spennufall í virkjun sem þú varst að reisa, hvað þetta var lítið mál fyrir þér, en ég lagði sama dæmi fyrir stærðfræðikennara minn og þá sá maður hversu flókið þetta var. Viðgerðir á allra handa tólum og tækjum sem til þín var komið með þóttu til mikils sóma enda leituðu margir til þín og allra vanda vildir þú leysa. Notkun rafmagns á bíla var mikið áhugamál hjá þér og fannst þér alveg ótrúlegt að það skyldu vera innheimt vörugjöld af slíkum bílum sem hægt væri að knýja með innlendum mengunarlausum orkugjöfum og fannst þér nær að þeir yrðu sem mest í notkun til að losna við að kaupa erlent olíusull eins og þú orðaðir það. Einkatölvan og öll tölvutæknin var þér mikið áhugamál og ótrúlegt hversu góðum tökum þú varst búinn að ná á allri þeirri flóru, kominn hátt á tíræðisaldur, og sýndi vel þína skörpu greind og fróðleiksfýsn.

Með þér er farinn einn af föstu punktunum í lífi mínu en á heimilinu í Svínadal hjá þér, ömmu og Nonna bróður þínum dvaldi ég langdvölum og átti þar alveg heima um nokkurt skeið og hjá mér var Svínadalur eini staðurinn sem ég kallaði heim. Eftir að ég eignaðist fjölskyldu fylgdist þú ævinlega af stakri umhyggju með hvernig gengi hjá okkur öllum. Megi góður Guð, sem þú trúðir svo einlægt á, vera þér náðugur og ég veit að verði mennirnir að englum þá verður þú engill. Börnum mínum varstu hvatning til heilbrigðs lífs í hvívetna með líferni þínu, það var nóg að tala um langafa í Svínadal máli sínu til stuðnings, þau kveðja langafa sinn með söknuði.

Ég vil þakka alla hjálpina og umhyggjuna í öll þessi ár, afi minn, því án hennar hefði ég ekki viljað vera.

Ömmu Ágústu og Nonna bróður þínum svo og öðrum aðstandendum vottum við Maríanna samúð okkar.

Óskar Vignir.