Ólafur Þ. Þórðarson Elsku Óli frændi. Í bernskuminningum mínum ertu sveipaður ljóma skemmtilegra minninga úr sveitinni heima á Stað þar sem allt var gott og fallegt og engan skugga bar á. Þegar Óli frændi var væntanlegur heim í skólafríum og á sumrin, var mikil tilhlökkun hjá okkur krökkunum því þá var líf og fjör framundan. Við vorum eins og hvolpar á eftir honum, vildum ekki missa af neinu, hestarnir voru sóttir og farið í reiðtúr, heyskapur og göngur, alltaf var Óli hrókur alls fagnaðar, við börnin vorum þátttakendur í því sem var að gerast í sveitinni og talaði við okkur sem jafningja. Óli var mikill dýravinur og ég man m.a. hve mikið hann reyndi að láta lækna augnsjúkdóm í skoskum fjárhundi sem var á Stað og var í miklu uppáhaldi hjá öllum. Í sveitinni var kveðist á í fjósinu á kvöldin og afi hvatti okkur til að læra vísur og ljóð. Óli kom með vísnarkver sem hét "Hundrað hestavísur" og ég setti mér það markmið að læra það og kveða afa í kútinn. Þegar við Óli hittumst síðast, 1. ágúst í brúðkaupi systur minnar, rifjuðum við saman upp þegar hann hafði látið mig unga sitja hestinn sinn Jarp og afi ávítað hann fyrir að láta barnið sitja svo viljugan klár. En þegar afi reið klárnum var hann viljugur en fór gætilega þegar barn átti í hlut, þetta vissi Óli. En einnig rifjuðum við upp þegar við fórum ríðandi frá Önundarfirði yfir Klofning í Staðardal og mér leist ekkert allt of vel á blikuna þegar hestarnir fóru að renna til í hörðum snjó efst í dalnum. En Óli teymdi klárinn minn og allt blessaðist þetta þó amma væri orðin óttaslegin því komið var myrkur þegar komið var heim á Stað. Óli var baráttu- og hugsjónamaður og sem oddviti Suðureyrarhrepps og síðar þingmaður Vestfjarða lagði hann ásamt öðrum grunninn að þeim hugmyndum um Vestfjarðagöng sem að lokum tókst að framkvæma "en fáir njóta eldanna sem kveikja þá".

Þegar göngin til Súgandafjarðar voru sprengd í gegn var ég í hlutverki oddvita Suðureyrarhrepps og við Óli ásamt nokkrum öðrum upplifðum þá sérstöku tilfinningu að ganga í fyrsta skipti í gegnum fjallið og sjá Súgandafjörð blasa við, það var stórkostlegt, langþráður draumur hafði ræst. Leiðir okkar Óla lágu saman á kosningaferðalagi um Vestfirði tvennar alþingiskosningar og alltaf var stutt í grínið og gáskann hjá honum þó alvaran byggi að baki, efling vestfirskra byggða var honum hjartans mál. Óli hafði húmor fyrir sjálfum sér og öðrum og til marks um það sagði hann þegar hann var spurður í kjölfar hjartauppskurðar og mörgum kílóum léttari hvort þetta hefði ekki verið erfitt, "jú, jú," var svarið, "það er ekki fyrir nema fullfríska menn að lenda í þessu". Í Óla sameinaðist náttúrubarnið, uppalandinn og hugsjónamaðurinn, það var góð blanda sem gaf þeim sem voru honum samferða gott veganesti. Ég kveð góðan frænda með söknuði en minningarnar lifa um mann sem hafði kjark og þor til að fylgja sannfæringu sinni.

Guð styrki ástvini hans alla.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, Súgandafirði.