Guðmundur Guðnason Hann afi minn er dáinn. Það er víst gangur lífsins en ég á minningar sem þjóta nú í gegnum hugann. Ég sé hann alltaf fyrir mér í eldhúsinu bæði í Fögruhlíð og upp á Kirkjuhvoli, því eldhúsið var hjarta heimilisins. Mér finnst eins og ég sé komin inn í eldhúsið til þeirra í Fögruhlíð, alveg nývöknuð með stírurnar í augunum því að ég vissi að hafragrauturinn var tilbúinn og að afi var búinn að fara út að gefa. Hann afi var sá eini sem var undanskilinn þegar kom að því að borða hafragrautinn áður en maður tækist á við daginn. Á eftir var það svo kaffibolli með tveimur molum og svo voru spilin tekin upp og lagður kapall því spilin voru órjúfanlegur hluti af eldhúslífinu.

Eftir að afi og amma fluttust í Kirkjuhvol notaði ég hvert tækifæri til að fá ömmu til að hjálpa mér með handavinnuna mína og hafa vit fyrir mér í prjónaskapnum. Afi stóð álengdar og kímdi að þrjóskunni í mér og þolinmæði ömmu. Þegar ég kom til þeirra streymdi hlýjan á móti mér og afi sagði gjarnan: "Nei, Ragnheiður mín, ert þú komin?" með alveg ákveðinni hrynjandi. Ósköp var hann nú glaður og þakklátur þegar ég heimsótti hann eftir stúdentsveisluna mína í öllum skrúðanum og með húfuna á höfðinu, því hann var eitthvað lélegur þann daginn og treysti sér ekki í veisluna. Þegar ég sagði afa að ég væri að fara til Ameríku var hann ekkert hissa og sagði: "Já, já þú ert að fara til að læra?" "Nei, svaraði ég, "til að passa börn." "Passa börn?!? Er ekki nóg af börnum hérna??" Svona var nú afi minn, hann sá nú ekki alveg tilganginn með því að fara alla leið til Ameríku til að passa börn. En hann sá nú að sér strax og sagði: "Já, þú ert þá að fara til að ná málinu almennilega." "Já," svaraði ég, "og svo tek ég líka nokkra kúrsa í kvöldskóla." Já, já, þá var þetta nú allt saman gott og blessað.

Elsku afi. Nú ertu farinn en ég veit að þú ert þarna og fylgist með okkur. Mér þykir sárt að geta ekki fylgt þér síðasta spölinn en þetta er mín leið til að kveðja þig. Það er líka erfitt að geta ekki verið með fjölskyldunni á stundum sem þessum.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

(V. Briem) Elsku amma, megi Guð styrkja þig í sorg þinni. Öllum öðrum fjölskyldumeðlimum sendi ég samúðarkveðjur. Megi Guð vera með okkur öllum.

Ragnheiður.