Elisabeth (Betty) Jóhannsson Í dag er til moldar borin tengdamóðir mín, Betty, sem lést eftir stutta, en erfiða sjúkdómslegu 82 ára að aldri. Fram að þeim tíma hafði henni sjaldan orðið misdægurt og voru veikindin henni þung raun. Betty var sterkur og svipmikill persónuleiki og hafði mikil áhrif á þá sem henni kynntust. Hún kom úr öðru og formfastara menningarumhverfi til Íslands fyrir rúmum 50 árum og má nærri geta, að erfiðara hafi verið að ná fótfestu í framandi landi á þeim tíma en nú er. Sérstaklega þegar eiginmaðurinn var langdvölum að heiman við sjósókn og hún þurfti að axla byrðar sjómannskonunnar við umsjá heimilis, barna og erindreksturs þeirra vegna, mállaus á íslenska tungu til að byrja með og alls óvön siðum og háttum mörlandans. Sú lífsreynsla stældi kjark hennar og dug og ól með henni þá reglufesti og trúmennsku, sem hún miðlaði til barna sinna í uppeldinu. Þykist ég sjá margt af því hjá barnabörnum hennar í dag. Betty var mikill vinur vina sinna. Því kynntust vinnufélagar hennar til margra ára vel. Hún leit á vinnustað sinn sem skjólstæðing, fremur en lífsviðurværi, og bar hag hans mjög fyrir brjósti. Enda voru vinnustundir hennar oft fleiri en stimpilkortið gaf til kynna og verkefnin fleiri en af henni var krafist. Alla starfsævina utan heimilis vann hún við rækjuvinnslu, lengst af hjá O. N. Olsen hf., og tók þátt í að koma skelfiskvinnslu af stað hjá því fyrirtæki og arftökum þess. Hafa margir lærlingarnir í faginu fengið tilsögn hjá Betty og er ekki að efa, að þeir hafi haft gott af og vonandi smitast af þeirri einlægni, sem einkenndi störf hennar.

Öðrum fremur er skylt að minnast á Magnúsínu Olsen og Guðrúnu Valgeirsdóttur, vinnu- og sálufélaga Bettyar í áratugi. Vinátta þeirra og samfylgd var henni mikils virði. Frá því Einar, eiginmaður Bettyar, lést fyrir 14 árum tóku Guðrún og Matthías Vilhjálmsson, maður hennar, Betty undir sinn verndarvæng og sýndu henni einstaka ræktarsemi og vinarþel sem aldrei verður fullþakkað. Veit ég að Betty reyndi að endurgjalda þeim elskulegheitin.

Eftir að börnin flugu úr hreiðrinu, gerði Betty sér far um að fylgjast grannt með því, hvernig þeim gekk að fóta síg í lífinu án hennar og hafði ákveðnar meiningar um hvað þeim var til lofs og lasts. Hún stóð fast með þeim í blíðu og stríðu og rétti hjálparhönd eftir getu. Símtölin hennar voru mörg í gegnum árin og yfirleitt hafði hún fyrst frá einhverju að segja sjálf, þegar hún hafði fengið að vita upp á hár, hvað afkvæmin og fjölskyldur þeirra höfðu fyrir stafni þá dagana. Sú "afskiptasemi" bar umhyggju hennar gott vitni og er eitt af því í fari hennar, sem við eigum eftir að sakna. Betty var sönn ættmóðir og rækti það hlutverk með sóma.

Ég vil að lokum minnast á þátt Bettyar í uppeldi barna okkar hjóna, Einars Snorra, Bjarnveigar og Láru Bettyar. Hún var trúnaðarvinur þeirra, sálusorgari og siðbætir. Hún nálgaðist þau miklu frekar sem vinur en uppalandi, og gat því náð eyrum þeirra á annan og áhrifaríkari hátt en foreldrarnir, þegar á reyndi. Hin síðari ár var Lára Betty mjög nákomin ömmu sinni og ræktuðu þær með sér þá einlægustu vináttu sem ég hef nokkurn tíma orðið vitni að. Missir hennar er því mikill.

Ég vil þakka tengdamóður minni fyrir liðna tíð, og allt það góða sem hún hefur skilið eftir í minnum okkar. Blessuð sé minning hennar.

Hörður Högnason.