Einar Jóhann Alexandersson Ég vil minnast frænda míns og vinar Einars Alexanderssonar, sem lést 25. júní sl. Ég gat því miður ekki verið við útför hans, sem fór fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík 2. júlí sl.

Hann fæddist í Neðri-Bænum á Dynjanda í Jökulfjörðum og var fjórði í röð níu barna hjónanna Alexanders Einarssonar og Jónu S. Bjarnadóttur. Auk þeirra systkina voru frændsystkini hans átta að tölu á sama bænum, svo það var engin lognmolla þar í uppvextinum.

Í Fremri-Bænum var einnig barnmargt, þar voru þau níu og í þeim hópi var Bentey Hallgrímsdóttir, sem síðar varð eiginkona Einars.

Einar var vammlaus maður til orðs og æðis, prúðmenni og lét lítið yfir sér. Hann stundaði sjó á unga aldri, en lærði síðar trésmíði, sem hann stundaði ævina út. Hann var afar vandvirkur og samviskusamur í störfum sínum og eftirsóttur í vinnu. Víða liggja handarverk hans, ekki síst hjá ættingjunum.

Við Einar gengum saman í barnaskóla hjá síra Jónmundi Halldórssyni vestur í Grunnavík og má segja að vinátta okkar hafi ekki rofnað síðan þótt vík væri oft milli vina. En við áttum þess kost að vinna saman að hugleiknu verkefni á seinni árum, okkur báðum til ánægju.

Mér er hryggð í huga við fráfall hans, en hann slasaðist við vinnu sína og lést nokkru síðar.

Þau eignuðust þrjú efnisbörn og Einar gekk tveim börnum Bettýjar í föðurstað, en hún missti fyrri mann sinn frá ungum börnunum. Þau sakna öll vinar í stað og ekki síst afabörnin hans.

Ég vil kveðja hann með gömlu versi, sem Jóhanna Einarsdóttir frá Horni, langamma okkar beggja, kenndi barnabörnum sínum á Dynjanda og hefur gengið til niðja hennar.

Jesú mér ljúfur lýsi

leið þú mig Jesú kær.

Jesú mér veginn vísi

vertu mér Jesú nær.

Hafðu mig Jesú hýri

handanna á milli þín.

Jesú mér stjórni og stýri.

Stoð Jesú vertu mín.

Innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldu hans.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

(V. Briem.) Steinunn M. Guðmundsdóttir.