Gunnar Bjarnason Með þakklátum huga og virðingu minnist ég vinar míns og samferðamanns um langt árabil. Ég kynntist Gunnari Bjarnasyni og fyrri konu hans Svövu þegar þau voru næstu nágrannar okkar á Hvanneyri. Á þeim tíma var Hvanneyri miklu fámennara en í dag og voru húsin á staðnum ekki mörg. Aðeins örfáir metrar voru á milli heimila okkar en Gunnar bjó þá í Álfhóli en við í Svíra og stóðu bæði húsin á sama hólnum. Samgangur var að sjálfsögðu mikill milli heimilanna.

Gunnar var kennari á Hvanneyri og hrossaræktarráðunautur Íslands á þessum tíma og á ég honum mikið að þakka fyrir leiðbeiningar og handleiðslu á mínum fyrstu skrefum um hrossaræktina. Það var Gunnar Bjarnason sem fyrst stýrði mér inn á braut hrossaræktunarinnar. Það var honum að þakka að hryssurnar mínar Skeifa og Komma komust í ættbók. Hann sagði einfaldlega: "Hryssurnar eru góðar, þú þjálfar þær vel og mætir með þær á Landsmót á Þingvöllum". Hann hafði svo hvetjandi áhrif og var aldrei letjandi. Ég fór eftir orðum hans af bestu getu og undirbúningurinn að því starfi hófst, sem síðan hefur loðað við mig og mína fjölskyldu. Gleymi ég seint þegar Svava, fyrri kona hans, kom hlaupandi yfir til mín með kveðju frá Gunnari, sem þá var staddur austur á landi við dómstörf og úrtökur fyrir Landsmót. Sagði hann að tíminn væri farinn að líða ansi hratt og Landsmótið að skella á, skyldi ég því leggja áherslu á hæga töltið hjá Skeifu; skeiðið væri öruggt hjá henni. Þannig hvatti hann og fylgdist með okkur hestafólkinu. Þökk sé heiðursmanni. Þegar á mótsstað kom og keppni var hafin var enginn í raun neðstur. Hann talaði ekki niður til okkar, sem sum hver vorum með kvíðaherping í maganum. Allir hestar og menn fengu umfjöllun sem framsett var á diplómatískan og rómantískan hátt. Maður fylltist von og bjartsýni um að hægt væri að bæta og laga og gera betur, svo miklu, miklu betur næst!

Óneitanlega verða ýmsar sveiflur á langri ævi og um tíma fór Gunnar frá Hvanneyri og gerðist skólastjóri á Hólum í Hjaltadal. En kom svo síðar aftur að Hvanneyri ásamt Guðbjörgu, seinni konu sinni og nýrri fjölskyldu og jörpu hestunum sínum sem hann hélt mikið uppá. Við Gunnar og Guðbjörg höfðum þá saman hesthús á Tungutúnshólnum og ógleymanlegir voru óteljandi útreiðartúrarnir um Hvanneyrarfitina, niður á Hvítárhól og út í Land sem kallað var. Þekktum við orðið þar hverja þúfu. Heimsóknir til nágrannanna í Andakíl og Skorradal voru ógleymanlegar, t.d. Péturs á Miðfossum, Sigurðar á Indriðastöðum, Guðrúnar á Grund, Jóns á Skeljabrekku, Davíðs á Hvítárvöllum, Leifs og Rúnu á Heggsstöðum, Einars á Hesti og Guðjóns á Syðstufossum. Þar sem við fengum á hverjum stað, með kaffinu, fróðleik og sögur um hesta og menn. Gunnar þekkti alla og allir þekktu Gunnar og ég fékk að kynnast því með honum. Ég tók eftir að Gunnar heilsaði ávallt með kveðjunni: Komdu sæll, vinur, eða sæl vinkona. Kvaddi hann á sama hátt. Hann umgekkst alla að heldri manna hætti með miklum glæsibrag. Hann var alltaf vel klæddur á hestamótum og öðrum mannfagnaði og þegar hann mokaði undan hestunum sínum eða kenndi þeim var hann alltaf í hálfsíðum sloppi, alltaf hreinn og snyrtilegur.

Gunnar var hugsuður og framúrstefnumaður og langt á undan sinni samtíð. Hann hafði stóra framtíðardrauma um íslenska hestinn og kom þeim til skila til þeirra sem vildu hlusta og skilja og þeim fjölgar óðum. Hann var fullur af eldmóði og án vanmetakenndar. Að hlusta á Gunnar lýsa dómum kynbótahrossa var sérstök upplifun, engum leiddist á meðan. Hann hafði algert og óþvingað vald á blæbrigðum íslenskrar tungu og nýtti sér þessa hæfileika sína vel. Hann var diplómat af Guðs náð.

Ef inni er þröngt, tak hnakk þinn og hest.

Og hleyptu á burt undir loftsins þök.

Hýstu aldrei þinn harm. Það er best.

Að heiman, út, ef þú berst í vök.

Það finnst ekki mein, sem ei breytist og bætist,

ei böl, sem ei þaggast, ei lund, sem ei kætist.

Við fjörgammsins stoltu og sterku tök.

Lát hann stökkva, svo draumar þíns hjarta rætist.

(Einar Ben.) Gunnar eignaðist sanna trú og athvarf hjá Guði sínum bæði í gleði og sorgum.

Far þú í friði, kæri vinur, og hafðu kæra þökk fyrir það sem þú varst mér og minni fjölskyldu. Innilegar samúðarkveðjur sendi ég aðstandendum og vinum.

Sigurborg Ágústa Jónsdóttir.