Sædís Kristinsdóttir "Gísli! Viltu aðeins koma og hjálpa mér með þetta dæmi hérna." Það var Sædís, vina mín og nemandi, sem kallaði og bað um aðstoð. Ég fór til hennar og í sameiningu fundum við bestu lausn á dæminu sem hún var að glíma við.

Ekki grunaði mig þá að þetta væri í síðasta skipti sem Sædís bæði mig um hjálp í stærðfræði og þetta væri í síðasta sinn sem ég sæi þessa fíngerðu og elskulegu stúlku í 10. G.Ó., bekknum mínum.

Ég minnist vel hvernig fundum okkar bar fyrst saman haustið 1997, þá var hún að hefja nám í 9. bekk í Barnaskóla Vestmannaeyja.

Sædís valdi sér sæti sem næst kennaraborðinu og fljótlega tókst með okkur góður vinskapur.

Sædís var vönduð stúlka til orðs og æðis. Ég man aldrei til þess að styggðaryrði hafi ratað af munni hennar til bekkjarfélaga eða kennara. Þar fór ungmenni með hreint hjarta.

Það er huggun harmi gegn, að gegnum svartnætti sorgarinnar lýsir von. Það er von um endurfundi.

Þessi von kom fyrir frelsarann Jesú Krist. Jesús birti okkur þessa von þegar hann sagði: "Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja." (Jóh. 11:25.)

Ég minnist Sædísar nemanda míns með hrærðum huga og söknuði og votta foreldrum hennar og systkinum dýpstu samúð.

Gísli Jóhannes Óskarsson, umsjónarkennari 10. G.Ó.