Sædís Kristinsdóttir Það var sárt að heyra það að hún Sædís væri dáin, þessi unga, fallega og góða stúlka. Ég vil minnast hennar með nokkrum orðum. Sædís tók virkan þátt í starfi æskulýðsfélags KFUM og K í Landakirkju. Í starfi æskulýðsfélagsins var hún sterkur hlekkur og verður hennar sárt saknað í starfinu.

Sunnudagskvöldið 20. september sl. var haldinn æskulýðsfundur sem tileinkaður var minningu Sædísar. Á þeim fundi var 23. Davíðssálmurinn lesinn.

Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta. Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta. Hann hressir sál mína, leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns. Jafnvel þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt, því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig. Þú býrð mér borð frammi fyrir fjendum mínum; þú smyrð höfuð mitt með olíu; bikar minn er barmafullur. Já, gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína, og í húsi drottins bý ég langa ævi.

Ég vil senda bekkjarsystkinum, kennurum og vinum Sædísar samúðarkveðjur.

Ég bið Guð að gefa foreldrum, systkinum og öðrum ættingjum styrk í sorg þeirra. Blessuð sé minning Sædísar Kristinsdóttur.

Gylfi Sigurðsson,

æskulýðsfulltrúi Landakirkju.