Elisabeth (Bettý) Jóhannsson Elsku Bettý, mér er minnisstætt þegar við hittumst fyrst. Þú tókst á móti mér með hlýju og þeirri umhyggju sem átti eftir að einkenna viðmót þitt til mín og minnar fjölskyldu.

Þú varst sterkur persónuleiki með mikla lífsreynslu og hafðir gaman af að miðla af henni til mín. Þú fylgdist óvenjulega vel með því sem efst var á baugi í þjóðfélaginu og hafðir þínar ákveðnu skoðanir á hlutunum sem enginn gat breytt. Við vorum ekki alltaf sammála um alla hluti en það breytti engu um vináttu okkar og samskipti. Þú hafðir skemmtilegan húmor og það var gaman að hlæja með þér. Á milli okkar skapaðist gott samband sem ég er þakklát fyrir.

Mér finnst skrýtið að hugsa til þess að þú sért farin. Þú sem fylgdist svo vel með öllu sem við tókum okkur fyrir hendur. Alltaf varst þú að hugsa um okkur. Þessi umhyggja fyrir fjölskyldunni er það sem er sterkast í minningunni um þig. Þú varst ekki mikið fyrir það að tala um sjálfa þig. Stundum hafði ég orð á því við þig að mér fyndist þú láta okkur ganga fyrir sjálfri þér. En þú svaraðir alltaf: "Þetta er það sem skiptir máli. Þetta er það sem mig langar að gera." Svona varst þú. Mér lærðist fljótt að þykja vænt um þessa staðfestu þína.

Á kveðjustund koma upp minningar um góða tengdamóður og ég verð alltaf þakklát fyrir vináttu okkar.

Ragna Dóra.