Elisabeth (Bettý) Jóhannsson Það er fátt dýrmætara í veröldinni en að eiga góða vini. Ég skynja það svo vel við andlát Bettýar Jóhannsson, því þar missi ég mína bestu vinkonu.

Við Bettý kynntumst fyrir þrjátíu árum þegar ég hóf störf í rækjuverksmiðjunni O.N. Olsen á Ísafirði. Þótt á okkur væri átján ára aldursmunur tókst strax með okkur mikil vinátta sem hefur haldist síðan.

Við fluttumst saman á milli vinnuveitenda þegar rekstri O.N. Olsen var hætt og störfuðum saman í Bjartmar og síðan Ísveri og þá alltaf í sömu húsakynnum, enda hlógum við oft að því að við fylgdum með innréttingunni.

Í gegnum árin var varla hægt að minnast á Bettý öðruvísi en nefna Einar, eiginmann hennar, um leið. Þau hjón voru eins og eitt, samheldin og trygg. Einar lést árið 1984 og var mikill missir fyrir Bettý. Síðustu árin eftir að Bettý hætti að vinna úti, varð hún mér eins og önnur systir. Við hringdum hvor í aðra á hverjum degi, alltaf fyrir hádegi. Þetta var orðinn fastur liður og hún svaraði alltaf eins: "Góðan daginn, Guðrún Valgeirs." Og það er víst að ég á eftir að sakna þess.

Ég á líka eftir að sakna bíltúranna okkar inn í kirkjugarðinn í Engidal, þegar hún vitjaði leiðisins hans Einars. Þá sátum við oft drjúga stund á bekknum og nutum góða veðursins og ræddum menn og málefni.

Hún gladdist á brúðkaupsdegi Einars Snorra dóttursonar síns og Bjargar konu hans hinn 4. júlí síðastliðinn og fjórum dögum seinna veiktist hún hastarlega.

Nú er sá sem öllu ræður búinn að veita henni hvíldina, hvíld sem hún þráði því hún vildi ekki vera upp á aðra komin með aðstoð.

Að lokum sendi ég og fjölskylda mín okkar innilegustu samúðarkveðjur til barna Bettýar, tengdabarna og fjölskyldna þeirra. Hún átti góða að að eiga ykkur.

Megi minning um yndislega konu veita ykkur styrk og sefa sárasta söknuðinn.

Kæra vinkona, þegar ég kveð þig í síðasta sinn vil ég og fjölskyldan mín öll þakka þér samfylgdina, og alla þá vináttu og kærleik sem þú hefur sýnt okkur í gegnum árin.

Við biðjum þér Guðs blessunar í nýjum heimkynnum.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð þinn náðarkraftur,

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Þýð. S. Egilsson.) Sofðu rótt, mín kæra.

Þín vinkona

Guðrún Valgeirsdóttir.