Elisabeth (Bettý) Jóhannsson Það var árið 1955, sem Ísfirðingum bættust góðir borgarar í sínar raðir. Maðurinn Einar Jóhannsson var kominn til að taka við skipstjórn á nýsköpunartogaranum Ísborgu, og konan Elísabeth Clegg Jóhannsson til að búa þeim og börnum þeirra heimili á stað þar sem þau vart þekktu nokkurn mann. Einar var alinn upp á Seltjarnarnesi, en Elísabeth eða Betty, eins og hún var jafnan kölluð, kom frá fiskibænum Grimsby í Bretlandi.

Vart þarf að leiða getum að því hvert átak það hefur verið fyrir Betty að yfirgefa sitt föðurland, ættingja og vini og allt, sem bindur fólk við sínar rætur, og hverfa til lands, sem bjó við gjörólíka lífshætti og töluð tunga, sem hún skildi ekki eitt einasta orð í. En þetta gerði Betty með glöðu geði fyrir þann mann, sem hún hafði bundist tryggðaböndum í heimabæ sínum Grimsby hinn 9. ágúst 1946. Eftir að ég síðar fékk að kynnast Einari, þá skildi ég betur hvers vegna þessi unga og glæsilega kona tók þessa örlagaríku ákvörðun. Við Einar vorum nánir samstarfsmenn síðustu sex árin sem hann lifði. Þau ár þróaðist með okkur vinátta og gagnkvæmt traust, sem aldrei komu neinir brestir í. Mér varð hann mikill harmdauði, er hann féll frá aðeins 63 ára, og hafði þá verið starfandi fram á síðasta dag. Ég geymi allar samverustundir með honum í sjóði þeirra minninga, sem mér eru kærastar. Ísafjarðarbær heiðraði hann með því að nefna götu, sem liggur að Ísafjarðarhöfn, Einarsgötu.

Vinátta okkar Einars varð þá og ávallt síðan einnig að vináttu við Betty. Framlag hennar er að mínu viti saga kvenhetju, sem gerði Ísland að sínu heimalandi, Ísafjörð að sínum heimabæ, þar sem hún þurfti líkt og aðrar sjómannskonur að hafa veg og vanda af uppeldi barnanna, sem urðu fimm talsins, meðan heimilisfaðirinn rækti sín skyldustörf á sjónum. Þegar börnin stálpuðust, fór hún út á vinnumarkaðinn, sem markaði brautina að því, sem hún átti eftir að starfa við alla tíð. Í útgerðarbæ var helzt vinnu að hafa við vinnslu sjávarafurða. Betty tók þá til að standa við færiband og hreinsa "rauða gullið" þ.e.a.s. rækjuna og gera hana að hágæðavöru fyrir fyrrverandi landa sína í Bretlandi að neyta. Lengst af starfaði Betty í rækjuverksmiðju við Sundstræti á Ísafirði, sem kennd var við stofnandann, Ole N. Olsen, en hann var sonur brautryðjanda rækjuveiða á Íslandi, Simon Olsen, sem til bæjarins hafði komið að hætti víkinga frá Vestur-Noregi, og hóf rækjuveiðar hér þrátt fyrir litla tiltrú, og jafnvel aðhlátur samborgara sinna. En enginn hlær að frumkvöðlinum, þegar ágæti verka hans er öllum ljóst. Það var því vel við hæfi, að "kvenvíkingur" frá Bretlandseyjum fylgdi eftir frumkvæðinu frá Noregi og helgaði þessu fyrirtæki sína starfskrafta. Vinna Bettyar í þágu rækjuiðnaðarins á Ísafirði verður seint metin að verðleikum, fremur en margra, sem lengi hafa starfað við íslenzkan fiskiðnað, en við verðum að trúa því, að sá sem öllu ræður færi henni nú launin að loknu miklu og góðu dagsverki.

Þrátt fyrir mikið vinnuálag, bar heimili Bettyar vott um dugnað hennar og smekkvísi. Börn hennar og barnabörn vita það bezt, að hennar lífshamingja fólst í því að veita frá sínu stóra hjarta.

Þrátt fyrir að Betty væri eftir langa Íslandsdvöl orðin meiri Íslendingur en mörg okkar, sem hér erum fædd, þá gleymdi hún ekki sínum gömlu löndum, og nutu því margir brezkir sjómenn gestrisni hennar og Einars. Meðal þeirra gekk heimili Einars og Bettyar í Fjarðarstræti 13 undir nafninu "Club 13". Einar heitinn var mikill húmoristi og hafði því mikið gaman af þessari nafngift. Þangað lögðu leið sína menn eins og Richard (Dick) Tailor skipstjóri á CCS Forester, sem íslenzka landhelgisgæzlan eltist mikið og lengi við á dögum þorskastríðanna. Vegna vináttu minnar við Einar og Betty fékk ég að kynnast þessum heiðursmanni í ferð til Hull. Hann er með minnisstæðustu mönnum, sem ég hef kynnst, skemmtilegur, skarpgreindur og mjög vinsamlegur í garð Íslendinga. Betty kom eitt sinn með okkur Einari til Bretlands og það var einmitt hún, sem opnaði mér nýja sýn á líf togaramanna og fjölskyldna þeirra í fiskibæjunum við Humber-fljót. Sú mynd var talsvert ólík því, sem íslenzkir fjölmiðlar mötuðu almenning á Íslandi á.

Nú hefur hún Betty kvatt þennan heim, sína nánustu, vini og bæinn, sem hún gerði að heimili sínu meira en hálfa ævina. Síðustu vikurnar háði hún erfiða en hetjulega baráttu, sem lyktaði með því, að Guð tók hana í faðm sinn. Ég mun lengi minnast síðustu hálfrar stundarinnar, sem ég dvaldi hjá henni á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði. Ég veit, að fátækleg orð mín þá komust til skila, þó hún hefði einungis hlýtt handtak og fallegt bros til að svara með. Að leiðarlokum vil ég þakka henni fyrir að hafa gert Ísafjörð að betri bæ með lífi sínu og starfi. Ég votta öllum aðstandendum hennar innilega samúð, og bið góðan Guð að varðveita minningu heiðurshjónanna Elísabeth Jóhannsson og Einars Jóhannssonar.

Ólafur B. Halldórsson.