Guðfinna Gísladóttir "En öllum þeim er tóku við Honum gaf Hann rétt til að verða Guðs börn, þeim er trúa á nafn Hans." (Jóh. 1:12.)

Þá er hún amma mín komin heim til Drottins. Ég á mínar fyrstu minningar af ömmu þegar hún gisti heima hjá okkur. Þá skriðum við bræðurnir upp í til ömmu, sem svaf í stofunni. Þá sagði hún amma okkur fallegar sögur. Þegar ég var fjórtán ára útvegaði amma mér mína fyrstu launuðu vinnu í Vörumarkaðinum, en hún bakaði kleinur fyrir fyrirtækið. Sumarið eftir var ég alltaf í hádegismat hjá ömmu. Er þetta það sem einkenndi hennar líf með Kristi, þ.e. hún var alltaf gefandi. Það sem ég man alltaf eftir þegar ég kom er að amma var búin að draga vers fyrir alla í fjölskyldunni og lesa það fyrir hvern og einn. Þvílíkt trúartraust og þessa blessun munum við fjölskyldan hennar erfa. Margir stólpar kirkjunnar eru og hafa verið biðjandi gamlar konur. Ég man eftir því að einu sinni gaukaði ég að henni einhverjum smápeningi, því ég vissi að þá átti hún ekki alltof mikið af honum. En amma, þessi gjöfula manneskja, vildi frekar gefa aurana í kristilegt starf (KFUM), sem henni var svo kært. Reyndar var það svo mikill fögnuður hjá ömmu, þegar ég komst til lifandi trúar, að það fyrsta sem hún vildi gefa mér var Biblían hennar. Alltaf var hún að gefa. Strax eftir að ég komst til trúar vildi amma fá mig í KFUM, þar sem hún var virkur meðlimur. Það er ekki skrítið að amma skyldi vilja hafa dótturson sinn í sama samfélagi og hún sjálf var, en seinna sýndi Guð mér og ömmu að ég átti að vera í annarri kirkju. Það er meðal annars fyrir bænir ömmu að ég á lifandi trú í dag. Ég man einnig eftir því þegar við Steinunn báðum í fyrsta skipti með ömmu. Þakklætið var mikið og mikil blessun. Núna undir það síðasta þótti ömmu það mjög gaman þegar við Guðfinna nafna hennar og Davíð Örn komum til hennar og sungum fyrir hana lofgjörðarlög. Þakklætið og gleðin var mikil hjá ömmu. Það var svo mikil blessun í hvert skipti sem við fórum frá henni. Hún sagði alltaf: "Guð almáttugur varðveiti þig." Hversu mikið hlustar Guð ekki á gamla einlæga konu? Svo var líka þakklætið mikið þegar ég skrifaði vers fyrir hana í dagbókina. En nú veit ég að hún amma er komin heim til Jesú. Innan tíðar munum við hitta hana þar og hlökkum við til þess tíma. Lof sé Guði fyrir það.

"En það er hið eilífa líf að þekkja Þig, Hinn eina sanna Guð, og Þann sem Þú sendir, Jesú Krist." (Jóh. 17:3.)

Eiríkur Sveinn og Steinunn.