Guðfinna Gísladóttir Við fráfall tengdamóður minnar koma upp í hugann margar minningar sem hægt er að staldra við. Fyrstu kynni mín af henni voru fyrir rúmum 50 árum, er ég fyrst kom á heimili þeirra mæðgna, en þá hafði ég fengið augastað á elstu dóttur hennar Valborgu.

Faðir þeirra systra Eiríkur Þorvaldsson hafði farist með báti sínum sem hann var formaður á nokkrum árum áður eða á stríðsárunum og móðir þeirra hafði ein haldið heimilinu saman eftir það, en það var að margra dómi á þeim árum talið þrekvirki, þar sem bætur voru nær óþekkt fyrirbrigði.

Guðfinna tók mér afskaplega vel og urðum við fljótt mestu mátar, mér varð þó ljóst að á heimilinu voru ákveðnar reglur og verkaskipti og dáðist ég oft að því hve hún var lagin við að fá dætur sínar til að skilja hvað það væri nauðsynlegt að allir stæðu saman og hjálpuðust að.

Við Valborg gengum í hjónaband síðla árs 1952 og fram að þeim tíma, svo og eftir það naut ég umhyggju og leiðbeiningar hennar í hvívetna og hafði mikið gott af. Við höfðum fengið íbúð í Hlíðunum og fluttum þangað, en Guðfinna hélt sitt heimili ásamt tveim yngri systrunum og eftir að þær fóru, bjó hún alltaf á sínu heimili, síðast í Furugerði 1, þar til aldur hennar leyfði það ekki lengur og hún fékk verustað að Droplaugarstöðum. Þangað var alltaf gott að koma og var hún alltaf svo ánægð og þakklát þegar komið var til hennar og átti hún þar yndislegt ævikvöld og naut þar mjög góðrar umönnunar starfsfólksins.

Margar sögur hafa verið sagðar um tengdamæður, bæði í léttum dúr og í alvöru, en í okkar hjónabandi kannast ég ekkert við annað en góðvild og hjálpsemi af hennar hálfu, og ég man aldrei eftir að orði hafi verið hallað í samskiptum okkar og miklu oftar tók hún minn málstað, ef eitthvað bjátaði á, og oft var gott að eiga hana að þegar leita þurfti ráða.

Með tilkomu barnabarnanna má segja, að nýr kapituli hæfist í lífi hennar, þar komu kostir hennar best í ljós í samskiptum við þau. Alltaf var hátíð þegar amma kom í heimsókn og aldrei voru vandræði þegar hún var nærstödd og margt gott var hún búin að kenna þeim, sem þau búa að enn þann dag í dag og yndislegt var að sjá hvað þau hædnust að henni, og þótti vænt um hana. Allt þetta endurtekur sig svo aftur í langömmubörnunum sem alltaf sóttust eftir að koma til hennar og vera með henni og er hennar nú sárt saknað.

Að leiðarlokum er í mínum huga eingöngu þakklæti til hennar fyrir allt sem hún hefur gefið okkur af góðmennsku sinni og elsku, og allar samverustundirnar þar sem minningin ein lifir. Guð veri með þér.

Haraldur Lúðvíksson.