Gunnar Bjarnason Það var haustkvöld 1963. Við skólapiltar sátum í eldrideildarstofunni á Hvanneyri og biðum þess að Guðmundur skólastjóri setti skólann. Flestir höfðu tekið sér sæti. Skyndilega er hurðinni svipt upp. Inn stormar fasmikill maður með konu sinni, háleitur og býður gott kvöld háum rómi: Það leyndi sér ekki að í stofu hafði gengið Gunnar Bjarnason, þjóðsagnapersóna þá löngu orðinn þótt skorti enn þrjú ár í fimmtugt. Eldri nemendur höfðu sagt okkur hinum af Gunnari. Víst var ég spenntari að kynnast kennslu hans en annarra við skólann.

Fyrsta verk Gunnars þetta haust var að fara með okkur framhaldsdeildungum í gegnum atvinnusögu. Kápugrænt námsbókarkorn höfðum við keypt. Úr því man ég nú lítið. Stundirnar hjá Gunnari þeim mun betur. Strax kom í ljós að vinnubrögð kennarans voru nokkuð óhefðbundin; töskukorn þunnt hafði hann með sér. Sennilega hefur téð kennslubók oftast verið þar ofan í. Kennarinn hlassaði sér ofan í stólinn, teygði vel úr sér með krosslagða fætur og greipar spenntar við hnakka ellegar hann tyllti sér út í gluggakistu. Stöku sinnum tók hann upp bókina, svona til þess að finna út hvar við værum; allt eins spurði hann okkur nemendurna, sem vorum aðeins fimm, hvert umræðuefnið hefði verið í síðasta tíma. Síðan hófst kennslan: efnispunktur var gripinn, ræddur og krufinn; hamingjan mátti vita hvaðan sá var kominn: Sauðagullið, Hornafjarðarstofninn, þingeysk bændamenning, germedín (sótthreinsiefni!), lífsskoðanir Hallgríms Þorbergssonar á Halldórsstöðum (sem Gunnar mat þá meira en aðra menn), júgurbólgan í Hvanneyrarkúnum ellegar dönsku samvinnufélögin svo fáein dæmi séu tekin. Þú spyrð hvað þetta átti skylt við atvinnusögu? Tja, það er nú það. Áhyggjur af því liðu fljótlega hjá ­ kápugræna bókin hlaut að sjá til þess. Hins vegar sat tvennt eftir: annars vegar sú unun að heyra Gunnar flytja mál sitt: meitlað, myndrænt og leiftrandi, og hins vegar listileg rökræða hans sem hvatti til efniskrufningar og spurninga, já nánast manaði alla til umhugsunar og andsvara. Enginn varð kátari en Gunnar, tækist honum að magna upp snarpa rökræðu ­ þá efldist hann um allan helming og hló gjarnan svo glumdi víða. Þurfti sjaldnast að velkjast í vafa um í hvaða stofu Gunnar Bjarnason var að kenna.

En fleiri hliðar átti Gunnar. Um þessar mundir var hann að skrifa bók sína, Búfjárfræði, eitt mesta ritverk sem unnið hefur verið af einstaklingi á sviði íslenskra búfræða. Hugur hans var bundinn verkinu; því leyndi ekki kennsla hans. Þá var ekki farið með himinskautum; af nákvæmni leiddi hann okkur í gegnum leyndardóma fóðurfræðinnar. Nutum við þess þá líka að hann var nýkominn úr framhaldsnámi í greininni, hafði kynnst nýrri þekkingu og svall móður að koma henni áfram.

Rýmið leyfir ekki upprifjun fleiri minninga um þátt Gunnars Bjarnasonar í kennslu og skólastarfi á Hvanneyri á þessum árum. Hafði hann þó mörg fleiri járn í eldi, sem hann hamraði þétt bæði og fast.

Í fasi Gunnars Bjarnasonar sá ég löngum fyrir mér hinn glófexta höfðingja íslensku heiðanna sem ekkert þráir eins mikið og frelsið, lætur skíðgarða og skorninga hvorki hefta för sína né breyta henni og tekur mótvindinn sem hressandi súrefnisauka er leysir enn meiri þrótt úr læðingi. Á mótunarárum í skóla eru það forréttindi að fá að kynnast slíkum mönnum; þeir eru sem saltið og piparinn í hversdagsjafning fræðanna. Sú staðreynd leitar æ oftar á huga minn sem fékk að setjast í kennarastól Gunnars á Hvanneyri er hann hvarf þaðan fyrir réttum fjórðungi aldar.

Nú hljóðnar hófadynurinn frá Gjallarbrú. Jóreykurinn eftir skeið Gunnars Bjarnasonar um völl íslensks landbúnaðar mun þó seint setjast því eftir stendur sterk minning; minning sem hvetur og vekur gleði, minning sem ljúft er að þakka. Blessuð sé hún. Frá Hvanneyri eru fjölskyldu Gunnars sendar innilegar samúðarkveðjur.

Bjarni Guðmundsson.