Guðný Scheving Það eru forréttindi að hafa alist upp hjá konu sem tilheyrði aldamótakynslóðinni og vera í svo nánum tengslum við samtíðarfólk hennar. Þetta er kynslóðin sem tengir okkur við arfleifðina, við hið einfalda bændasamfélag þar sem hver fjölskyldumeðlimur gegndi ákveðnu hlutverki. Þetta er fólkið sem upplifði þær breytingar sem iðnbyltingin hafði í för með sér. Allt frá sauðskinnsskóm til öldrunarstofnana. Fólkið sem bjó við bág kjör á krepputímanum en með þrautseigju og óbilgirni skapaði okkur þau kjör sem við búum við í dag.

Lífshlaup ömmu var fábrotið og sammerkt því hlutskipti sem beið margra kynsystra hennar. Hún var alin upp í bændasamfélagi, fór snemma til vinnukonustarfa á vetrum og kaupavinnu á sumrin. Hún fékk aldrei tækifæri til mennta, þrátt fyrir að hugurinn hneigðist snemma að hjúkrun. Engu að síður helgaði hún líf sitt þjónustu við aðra, allt til dauðadags. Amma var einstök kona og góðum gáfum gædd. Mannkostir hennar og innsæi laðaði til sín menn og málleysingja og gerði að verkum að alla tíð var gott að leita til hennar. Hún krafðist einskis en gaf okkur allt. Við minnumst að leiðarlokum góðrar konu og þökkum þann tíma er við áttum hana að.

Guðný og Þórunn.