Guðfinna Gísladóttir Elsku hjartans amma okkar.

Mikið verður það skrítin tilhugsun að geta ekki heimsótt þig á Droplaugarstaði, þú varst alltaf svo ánægð að fá heimsóknir og það var svo gaman að koma til þín. Margs er að minnast þegar við lítum til baka; allar þær skemmtilegu stundir sem við áttum með þér. Við systkinin nutum þess að vera samvistum við þig, þú hafðir alltaf nógan tíma, kenndir okkur að spila og tefla ­ og að sjálfsögðu þín ánægja að láta okkur alltaf vinna.

Aldrei fór maður svangur frá þér, þú sást alltaf til þess að allir fengju nóg að borða. Nýjar kleinur með kaldri mjólk voru okkar mesta uppáhald, enda bakaðir þú bestu kleinur í heimi.

Þú varst alltaf boðin og búin að hjálpa öðrum og passaðir þú elsta langömmubarnið þitt, hana Ingunni, tvo vetur. Þegar Sævar fór einn vetur í Álftamýrarskóla þá fékk hann að koma til þín eftir skóla og dekraðir þú þá við hann eins og þér einni var lagið. Langömmubörnin nutu þess að heimsækja þig, Margeir Alex söng alltaf fyrir þig þegar hann kom til þín þér til mikillar ánægju.

Elsku amma, við kveðjum þig með söknuði og þökkum þér fyrir allt það góða sem þú kenndir okkur og viljum enda þetta með kvæði sem þú söngst ávallt fyrir okkur fyrir svefninn.

Guð geymi þig elsku amma.

Þú Guð sem stýrir starna her

og stjórnar veröldinni,

í straumi lífsins stýr þú mér

með sterkri hendi þinni.

Guðfinna Elsa, Lúðvík, Eiríkur, Haraldur Valur og fjölskyldur.