Guðfinna Gísladóttir Þetta bréf barst til Guðfinnu, daginn sem hún lést, frá langömmubarni sem dvelur í Ameríku.

Sæl, elsku amma mín, loksins sest ég niður og skrifa þér nokkrar línur. Allt gengur vel hjá mér í Ameríku og er skólinn nýbyrjaður. Er ég sit og skrifa þetta bréf þá hugsa ég um allar þær frábæru stundir sem við höfum átt saman. Guð hefur sannarlega blessað mig mikið með því að gefa mér ömmu eins og þig. Ég er þér svo þakklátur fyrir það að kenna mér um guð er ég var lítill og fyrir það að lesa úr biblíunni fyrir mig. Mamma sagði mér að þér liði ekki sem best, amma mín, og ég vil að þú vitir að ég bið fyrir þér á hverjum degi og ég veit að guð mun sjá um þig því hann elskar þig eins og biblían segir: "hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt, né nokkuð annað skapað mun geta gjört oss viðskila við ást Guðs sem birtist í Kristi Jesú Drottni vorum". (Róm. 8: 37-39).

Ég vil að þú vitir að mér þykir mikið vænt um þig amma mín og ég mun biðja Guð um að gera það sem er best fyrir þig. Þú hefur haft mikil áhrif á mitt líf og margra annarra. Ég hef aldrei séð eins mikla góðmennsku og þú býrð yfir og ég veit að Guð kann að meta það sem þú hefur gert fyrir mig og aðra.

Megi Guð vera með þér að eilífu.

Þinn,

Sævar.