Gunnar Bjarnason Íslenskur landbúnaður hefur misst einn sinna hörðustu baráttumanna, mann sem skildi takmarkanir og tækifæri íslensks landbúnaðar, gerði sér grein fyrir íslenskum veruleika og hvert stefna ætti til framfara og velgengni fyrir íslenska bændur. Kannski var Gunnar alveg í sérflokki meðal íslenskra búvísindamanna, því að hann hann hafði þá gáfu að geta séð áratugi fram í tímann, þegar við hinir, sem þóttumst líka vera lærðir og vitrir, sáum varla lengra en nefið náði. Þegar litið er til baka er það einkennileg reynsla að hafa séð íslenskan landbúnað þróast eiginlega alveg eins og Gunnar reyndi að lýsa fyrir okkur fyrir þrjátíu árum! Víðsýni og réttsýni Gunnars var ótrúleg. Líflegar og oft harðar umræður á fundum Félags íslenskra búfræðikandidata upp úr 1960 um grundvöll og framtíð landbúnaðarins eru ljóslifandi í minningunni. Oft virtist Gunnar standa einn á móti öllum hinum. Undirritaður var oftast á hans máli, en skorti kannski hugrekki hans til að standa jafnfast á sannfæringunni opinberlega. Samt taldi Gunnar mig alltaf vera bandamann sinn.

Ég kynntist Gunnari fyrst sem kennara á Hvanneyri. Það er erfitt að lýsa kraftinum og sannfæringunni í kennslu Gunnars. Hann kunni sitt fag og hafði lag á að miðla okkur af þekkingu sinni á svo lifandi og skemmtilegan hátt að aldrei gleymist. Og menn halda að hann hafi bara haft vit á hrossum! Fóðurfræði var hans sérgrein og það var gott að eiga hlut af visku hans í þeim fræðum á seinni stigum menntaferilsins. En ég lærði fleira hjá Gunnari. Hann kenndi mér líka að rækta matjurtir, grafa skurði og að stjórna jarðýtu. Það kom sér vel nokkrum árum síðar þegar ég var við nám í Kanada. Þá ógnuðu flóð í Assiniboine og Rauðánni háskólasvæðinu í Winnipeg og spurt var hvort einhver kynni á jarðýtu. Eftir að hafa unnið mér inn nokkur hundruð dollara á jarðýtunni varð mér hugsað hlýlega til Gunnars, enda voru fjárráðin bágborin í þá daga.

Næst sá ég Gunnar á hestamótum í Austurríki og skynjaði hvílíkt þrekvirki Gunnar hafði unnið fyrir íslenska hestinn í Evrópu. Hann var þar eins og lord hestaíþróttana. Orð hans um íslenska hestinn voru óskráð lög. Þegar ég dæmdi á hestamótum ytra var ég kynntur sem nemandi sjálfs Gunnars Bjarnasonar, en það var mesti heiður sem Austurríkismenn gátu sýnt mér!

Örlögin höguðu því svo til að þegar heim kom eftir margra ára útilegu var ég orðinn yfirmaður Gunnars í starfi. Hann var þá forstöðumaður Fóðureftirlits ríkisins, sem í þá daga var deild á RALA. Ég naut þeirra ára sem við störfuðum saman. Bara að sitja með honum í kaffinu var uppspretta ótal hugmynda, en tækifærið til að ráðgast við Gunnar og ræða vandamálin var ómetanlegt. Hann var þá formaður í landbúnaðarnefnd Sjálfstæðisflokksins og vann ég með honum í nefndinni og tók að lokum við því starfi af honum. Margar hugmyndir um framtíðarþróun landbúnaðarins þróuðust í því starfi, en að sjálfsögðu nutu líka góðs af þeim hugmyndum stjórnarmenn RALA og landbúnaðarráðherrann, allt traustir og góðir framsóknarmenn. Þegar um heill landbúnaðarins var að ræða var flokkspólitík lögð til hliðar.

Þegar ég sneri enn einu sinni heim eftir langa dvöl erlendis var Gunnar einn af þeim fyrstu sem heimsóttu mig í ráðuneytið. Þá voru það málefni íslenska hestsins sem áttu eftir sem áður hug hans allan. Fyrir það verður hans minnst, sem þess manns sem hóf íslenska hestinn til þeirrar virðingar og aðdáunar sem hann nýtur víða um heim. Það er erfitt að ímynda sér hver staða íslenska hestsins væri í dag án þátttöku Gunnars í því ævintýri.

Gunnar var saddur lífdaga þegar hann kvaddi þennan heim, en mikið fer sá heimur á mis að geta ekki leitað í frjóum hug Gunnars að svörum við hinum mörgu ráðgátum framtíðarinnar.

Björn Sigurbjörnsson.