Sigríður Bjarney Karlsdóttir Hún amma mín er dáin. Og það er sárt að kveðja þó að ég viti að amma hafi verið hvíldinni fegin eftir heilsuleysi og áföll undanfarinna ára. En hún var alltaf svo brött og sterk og það er kannski einmitt þess vegna sem maður átti bágt með að trúa því að í þetta sinn myndi amma ekki hafa það af eins og í öll hin skiptin.

Hún var sterk kona af þeirri kynslóð sem hefur upplifað tímana tvenna, hún gekk í gegnum erfið tímabil í lífinu og varð fyrir miklum áföllum ­ það gerði hana kannski svona sterka. Það er ekki ætlun mín að rekja lífshlaup hennar hér heldur vil ég nota þessa kveðjustund til að rifja upp hvað gerði hana einstaka í mínum huga. Ég ólst upp hjá ömmu og afa í Fagradal þar til ég var sjö ára gömul og eftir að ég flutti frá þeim var ég þar tíður gestur í skólafríunum mínum. Á unglingsárunum vann ég m.a. í fiski á Stokkseyri og hélt þá auðvitað til hjá ömmu sem þá var flutt í Unhól. Þegar ég fór að kenna við grunnskólann á Stokkseyri fór ég iðulega til ömmu í hádegishléinu eða skrapp inn í kaffi ef ég hafði lausan tíma. Nokkru áður en hún flutti á Hrafnistu fórum við, fjórir ættliðir í beinan kvenlegg, saman til Spánar til afslöppunar. Eftir að ég stofnaði heimili sjálf kom amma oft í heimsókn til okkar og þá var nú oft rökrætt við eldhúsborðið og hvort sem umræðuefnið var stjórnmál, íþróttir eða hannyrðir þá var hún í essinu sínu því að hressileg orðaskipti leiddust henni aldrei.

Amma var mér því ekki bara amma, hún var að hluta til uppalandi minn og margt af því sem hún kenndi mér tel ég mitt besta veganesti í lífinu. Það var hún sem kenndi mér bænirnar og barnagælurnar sem ég vil skila áfram til barnanna minna. En hún var líka vinkona mín og til hennar leitaði ég oft með vangaveltur mínar og þá gátum við rætt málin fram og aftur. Þó svo hún væri kannski ekki sammála ákvörðununum sem ég tók þá virti hún þær alltaf. Frá því að ég var krakki kom amma alltaf fram við mig sem fullorðna manneskju og talaði við mig sem jafningja sinn ­ það finnst mér góð uppeldisfræði.

Við áttum sameiginlegan áhugann á yfirnáttúrulegum efnum og veltum þeim málum oft fyrir okkur. Og nú þegar ég kveð hana með söknuði og velti því fyrir mér hvern ég get nú spurt um undarlega drauma eða látið spá í bollann minn þá minnist ég hversu bjargföst hún var í trúnni: Við sjáumst síðar.

Amma mín ­ ég fylgi þér ekki síðasta spölinn þar sem þú munt hvíla við hliðina á afa, aðeins fáeina metra frá Hafsteini þar sem þú ólst upp. Hvíldu í friði.

Margrét Ýrr og fjölskylda, Noregi.