Sigríður Bjarney Karlsdóttir Þegar ég frétti af andláti ömmu fór ég ósjálfrátt að hugsa til baka og komst þá að því hvað amma er stór hluti af bernskuminningum mínum. Þó svo að ég hafi haft töluvert samband við ömmu í seinni tíð eftir að hún fluttist á Hrafnistu er eins og nú sæki að mér minningar um samband mitt við ömmu mína þegar ég var krakki.

Mér er það alltaf minnistætt þegar ég, sem smápatti upp við Búrfellsvirkjun, stóð úti á vegi og beið eftir Landleiðarútunni með systrum mínum. Amma var að koma í heimsókn, hún hafði með sér litla tösku því að hún stoppaði alltaf í nokkra daga og uppúr þessari tösku dró hún alltaf upp bláan ópal. Þessar heimsóknir hennar til okkar í Búrfelli einkennast af mikilli iðjusemi í minningunni; það var ýmist verið að búa til slátur, prjóna á okkur systkinin vettlinga og stoppa í sokkana okkar, sjóða sultu og svo voru að sjálfsögðu steiktar kleinur. Það var því mikið tilhlökkunarefni að vita að von væri á ömmu. Ekki bara var þetta gósentíð fyrir sísvangan strák heldur var andrúmsloftið alltaf svo notalegt.

Í seinni tíð gátum við amma setið í eldhúsinu hjá mömmu og stundað rökræðulist af kappi og þá skipti nákvæmlega engu máli hvert umræðuefnið var, við gátum alltaf skipst á skoðunum og höfðum bæði mjög gaman af.

Ég er þakklátur fyrir allar góðu minningarnar sem ég á um hana ömmu mína. Ég finn það sérstaklega í dag hversu mikils virði þær eru mér.

Ari Guðmundsson.