Guðmundur Guðnason Í dag er borinn til grafar afi minn, Guðmundur Guðnason. Mig langar að þakka honum samveruna með nokkrum orðum.

Alla ævi mína hefur afi verið sjálfsagður hluti tilverunnar, hann og amma voru eitt í huga mínum og það er erfitt að hugsa um þau hvort í sínu lagi þegar ég lít til baka. Þegar ég var lítil dvaldi ég oft hjá afa og ömmu og man eftir afa sem ströngum en réttlátum manni sem allir báru virðingu fyrir. Mér þótti gaman að koma í eldhúsið í Fögruhlíð og beið oft spennt eftir því að afi myndi nú standa upp frá borðinu og ganga að skápnum þar sem hann geymdi kúlurnar sem hann gaf okkur krökkunum. Ég man eftir því hvað mér fannst alltaf góð lykt af honum þegar hann kom inn frá verkunum og hafði þvegið sér vandlega með sápu sem í minningunni er alltaf græn og ilmandi. Afi minn var mér alltaf góður, hann var bóndi og kenndi mér að bera virðingu fyrir náttúrunni og lífinu sjálfu.

Langt fram á fullorðinsár var afi bara afi, hann var þarna eins og klettur og ég gerði einhvern veginn ekki ráð fyrir að hann væri eins og venjulegt fólk. Það var ekki fyrr en ég varð fullorðin sem ég kynntist afa sem persónu með skoðanir, langanir og þrár og uppgötvaði þá í raun fyrst hversu skemmtilegur hann var. Ég heimsótti hann oft á erfiðleikatímabili í lífi mínu og þá gaf afi mér góð ráð og veitti mér stuðning. Þá ræddum við saman um allt milli himins og jarðar. Hann hafði sínar skoðanir á mönnum og málefnum en leyfði mér að hafa mínar skoðanir og virti þær þótt hann væri mér ekki endilega sammála. Mér eru þessar stundir með afa sérstaklega kærar, kannski af því að þá uppgötvaði ég að hann var bara venjuleg manneskja eins og hver annar.

Afi minn reyndist mér alltaf vel og mig langar að þakka honum fyrir allt sem hann hefur gert fyrir mig, fyrir það sem hann hefur kennt mér og fyrir að vera afi minn.

Af eiífðar ljósi bjarma ber,

sem brautina þungu greiðir.

Vort líf, sem svo stutt og stopult er,

það stefnir á æðri leiðir.

Og upphiminn fegri' en auga sér

mót öllum oss faðminn breiðir.

(Einar Ben.) Elsku amma, ég votta þér mína dýpstu samúð og bið Guð að styrkja þig nú og um alla framtíð.

Sigurlaug Hrund.