Guðfinna Gísladóttir "Vitringurinn hirðir ekki um auðsöfnun. Því meira sem hann notar öðrum til blessunar, þeim mun meiri er eign hans. Þeim mun meira sem hann gefur náunganum, þeim mun ríkari verður hann sjálfur." Laó Tse. Þessi speki finnst okkur eiga einstaklega vel við Guðfinnu ömmu. Hún var einstök kona, gefandi og kærleiksrík manneskja, sem geislaði hlýju og umhyggju til annarra. Hún safnaði ekki veraldlegum auði heldur gaf ríkulega frá sér. Ekki mátti hrósa einhverju sem hún átti, þá vildi hún gefa viðkomandi það. Þannig fann hún til gleði að gleðja aðra. En sem meira var, hún gaf ekki einungis af hinu veraldlega, heldur gaf hún ríkulega af sjálfri sér. Hlýjar hendur hennar snertu hendur þínar, fallegt bros, hrós eða hvatning sem kom beint frá hjartanu. Nálægð hennar var geislandi, jákvæð og yndisleg orka streymdi frá þessari góðu konu. Að kynnast slíkum persónuleika á lífsleiðinni er þakkarvert, því í hjarta sínu er maður mikið ríkari. Við heimsóttum ömmu tveimur dögum fyrir andlátið. Þótt hún væri máttfarin í rúmi sínu, var þá eins og ætíð mikill kærleikur sem kom frá henni. Hún brosti til okkar, hélt í hendur okkar og kyssti þær. Hún sagði að sér liði vel, var sátt við að vera að fara í þá ferð sem bíður okkar allra. Hvílíkur friður sem fylgdi henni, enda hafði hún lagt ríkulega inn hjá æðri máttarvöldum. Við fundum til gleði fyrir hennar hönd að fá nú að mæta Guði sínum á himnum. Viljum við í lok þessara fáu orða, þakka samfylgdina við þessa einstöku konu og óska henni Guðs blessunar á nýjum samastað.

Jónína og Skúli.