Guðmundur E. Sigurðsson Yndislegt sumar er að kveðja.

Norðan- og austanvindar lemja niður litskrúðug lauf og blóm. Á sama tíma berst stóri, myndarlegi vinurinn okkar fyrir lífi sínu. Hann tapaði sinni baráttu eins og sumarið víkur fyrir haustinu. Ljósbrot minninganna streyma fram. Fyrstu kynnin er Eygló kynnti unnusta sinn, hinn glæsilega íþróttamann sem þegar hafði valið sér ævistarf sem lögreglumaður. Leiðir liggja þétt saman. Börnin okkar, gleði þeirra og áhyggjur, ferðalög, samkvæmi, útilegur, saumaklúbburinn.

En Ísland var of lítið. Kveðjustundir. Endurfundir. Ófáar ferðir til New York þar sem þú sýndir okkur stórborgina, allt frá mannlegri eymd til rismikilla bygginga. Stoltur sýndir þú okkur vinnustað þinn þar sem þú gættir mikilvægra manna sem og í öðrum heimsálfum. Símtölin þín og huggunarorð í okkar sorg. Svo kom að síðustu samverustundinni sem var í Hamborg. Ferðin heim með þig fársjúkan. Komið að ferðalokum. Á slíkum stundum hugsa menn um tilgang lífsins. Líf þitt hafði tilgang, það sjáum við á afkomendum ykkar Eyglóar sem allir syrgja þig svo sárt.

Við þökkum þér góða og trygga samfylgd í þeirri trú að við hittumst aftur síðar. Við biðjum góðan guð að vera með Eygló og börnunum ykkar, fjölskyldum þeirra, systkinum og tengdamóður og styrkja þau í sorginni.

Guðrún og Þorsteinn.