Aron Valur Guðmundsson Þú, Guð míns lífs, ég loka augum mínum

í líknarmildum föðurörmum þínum

og hvíli sætt, þótt hverfi sólin bjarta,

ég halla mér að þínu föðurhjarta.

Elsku litli vinur, dvöl þín hjá okkur var svo stutt en svo óendanlega dýrmæt.

Það var svo yndislegt að koma til þín og strjúka þér og banka í bakið á þér, þér fannst það svo gott, nudda litlu tásurnar þínar og finna þig grípa um fingur sem var lagður í lítinn lófa.

Í hjarta okkar geymum við minninguna um hugrakkan lítinn dreng sem barðist fyrir lífi sínu fram á síðasta dag. Og brún augu sem horfðu á okkur með svo mikilli athygli.

Elsku Ester og Mundi, þið sem hafið staðið ykkur eins og hetjur, engin orð geta huggað, aðeins tíminn.

Guð geymi ykkur og litla kútinn okkar, sem við kveðjum með söknuði.

Amma, afi og strákarnir.