Jón Eiríksson Nú er afi okkar á Fossi dáinn. Hálfum mánuði áður en hann hefði orðið 91 árs. Elsku afi, nú hugsum við öll um þá daga sem við áttum í sveitinni með þér, ömmu og Sigga. Minningar um þig gangandi um hlaðið á Fossi með stafinn þinn að fylgjast með því að allt gengi sinn vanagang, því þó að það væri ekki lengur í þínum verkahring þá varst þú alltaf Jón bóndi á Fossi.

Þú vildir fylgjast vel með þínu fólki og ef eitt okkar átti leið framhjá Fossi spurðir þú ávallt frétta af hinum í fjölskyldunni. Þegar Jón bróðir fæddist eignaðist þú alnafna og hann var greinilega sérstakur í þínum augum, alltaf spurðir þú um nafna, hvað hann væri að gera og hvernig honum gengi í fótboltanum.

Síðustu árin eftir að þú fórst á dvalarheimilið á Klaustri, var tómlegt að koma að Fossi. Þá heyrðist ekki í útvarpinu þínu inni í herbergi og þú varst ekki til staðar til að bjóða upp á kandís eða annað gotterí.

Við þekktum þig ekki þegar þú varst ungur, kæri afi, en höfum heyrt margar sögur af því hve duglegur og sterkur þú varst. Við bárum virðingu fyrir þér og vorum hreykin af því að Jón sterki var afi okkar. Nú hugsum við til þess að börnin okkar fá einungis að sjá myndir af þér og heyra sögurnar en við efumst ekki um að þau verði jafn stolt af þér og við erum. Við vitum að þú fylgist enn með okkur, líkt og þú gerðir alltaf.

Þei, þei og ró.

Þögn breiðist yfir allt.

Hnigin er sól í sjó.

Sof þú í blíðri ró.

Við höfum vakað nóg.

Værðar þú njóta skalt.

Þei, þei og ró.

Þögn breiðist yfir allt.

(Jóhann Jónsson.) Elsku afi, við kveðjum þig með söknuði.

Aðalsteinn, Eva Ósk, Herdís Fjóla, Jón og Hrafn.