Guðmundur Guðnason Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

(V. Briem) Heiðursmaður er genginn. Á tímamótum sem þessum leitar margt á hugann. Minningarnar koma til manns og líða hjá.

Guðmundi voru gefnir margir góðir kostir í vöggugjöf, m.a. falleg og góð söngrödd, glaðvært sinni og jákvæði sem hafði góð áhrif á alla í kringum hann. Hann hafði áhuga á mönnum og málefnum. Fylgdist vel með. Þjóðmálin voru oft ofarlega í huga hans, m.a. íslenskur landbúnaður, ekki síst á umbrotatímum eins og á undanförnum misserum. Hann hafði ákveðnar skoðanir á öllum hlutum og lét þær í ljós, en virti jafnframt annarra skoðanir. Hann bar ætíð hag afkomenda sinna mjög fyrir brjósti og fylgdist alltaf vel með því hvað þeir voru að gera og hvað þeir ætluðust fyrir.

Virðing hans fyrir mönnum og málleysingjum er mér ofarlega í huga. Hann var næmur á það hvernig öðrum leið. Hann hafði sterka réttlætiskennd, var jafnréttissinni. Það er því vel við hæfi að bæði karlar og konur bera hann síðasta spölinn í dag.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem) Ágústa Guðjónsdóttir.